151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:52]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Um málefnasvið dómstóla segir m.a. að meginmarkmiðið sé að traust ríki til dómstóla. Helstu áherslur í fjármálaáætlun eru m.a. að styrkja rafræna innviði. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þær áherslur ríma við að öll eigi að njóta réttaröryggis á Íslandi og traust ríki til dómstóla. Samkvæmt könnun Gallups, sem framkvæmd var 14. janúar til 15. febrúar 2021, sögðust 31% aðspurðra bera lítið traust til dómskerfisins og 23% hvorki mikið né lítið traust. Hlutfall karla sem báru mikið traust til dómskerfisins var 51% á móti 40% kvenna en 40% karla töldu sig þekkja vel til starfseminnar á móti 29% kvenna. Þá var einnig meira traust á dómskerfinu hjá háskólamenntuðum og þegar fjölskyldutekjur voru 1.250.000 kr. eða hærri. Það gefur augaleið að traust er meira þar sem fjölskyldutekjur eru hærri því að það kostar peninga að höfða dómsmál og það tekur gríðarlega mikla orku og þrek frá einstaklingum. Það eru mörg mál sem rata aldrei til dómstóla, annaðhvort þar sem einstaklingar telja sig ekki treysta dómstólum fyrir málinu eða þá að mál er látið daga uppi hjá lögreglu og því engin rannsókn til staðar svo að ekki er unnt að saksækja.

Mig langar að spyrja hvernig þeir fjármunir sem eru eyrnamerktir dómstólasýslunni eigi að auka traust almennings á dómskerfinu.