151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:57]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það er svo sem alltaf ágætt að spyrja í hvað peningarnir fara en ég vil aðeins spyrja út í það hvað telst vera réttlætanlegur sparnaður innan kerfisins. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spurði einmitt í umræðum í haust hvort til stæði af hálfu hæstv. ráðherra að efla Útlendingastofnun með peningum til þess að stofnunin gæti betur sinnt hlutverki sínu og dregið úr umfangi þessa lista. Mig langar að spyrja aftur út í þetta í ljósi þess að nú liggja fyrir á þingi breytingar á útlendingalögum þar sem orðið „skilvirkni“ kemur mjög oft fyrir. Skilvirknin felur þó í sér að gera kerfið ómannúðlegra og geta hent fólki úr landi sem ekki hefur fengið einstaklingsbundið mat á aðstæðum því að kerfið er með lögunum að fá heimild til að segja einfaldlega: „Computer says no!“ — með leyfi forseta.

Finnst ráðherra þessi áætlaða ómannúðlega meðferð á umsækjendum um alþjóðlega vernd vera réttlætanlegur fórnarkostnaður til að auka skilvirkni Útlendingastofnunar í stað þess að efla Útlendingastofnun svo að hún geti boðið upp á mannúðlega málsmeðferð og skilvirka fyrir einstaklingana sem þurfa á þjónustu hennar að halda?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og hægur vandi er að þýða setningar sem slíkar, sem hér féllu.)