151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni. Það fá allir í kerfinu okkar einstaklingsbundið mat. Allir fá einstaklingsbundið mat hjá Útlendingastofnun um það hvort þeir falli undir þá skilgreiningu sem varin er í mannréttindasáttmála Evrópu um að þurfa á alþjóðlegri vernd að halda sama hvort aðilar fá forgangsmeðferð eða efnismeðferð. Það er matið sem fer alltaf fram. Þegar talað er um fjármuni er alltaf hægt að fjölga og fækka lögfræðingum í samræmi við fjölda mála á hverjum tíma. Það er svigrúm í kerfinu til að aðlaga mannskap eftir þörfinni, eftir því hve margir leita hér að alþjóðlegri vernd. En ég er auðvitað ósammála hv. þingmanni hvað það varðar að það að orðið skilvirkni komi oft fram er ekki mælikvarði á frumvarpið sem slíkt. Í skilvirkni felst mikil mannúð. Það er mannúð í því að fólk sem fær hér alþjóðlega vernd fái svar fyrr og geti fyrr aðlagast íslensku samfélagi en það er líka mannúð í því fólgin að fólk fái svar og bíði ekki í óöryggi til lengri tíma þó að svarið sé neikvætt. Almennt eru þessi mál sem hv. þingmaður vísar til mál þar sem aðilar hafa fengið vernd annars staðar. Í frumvarpinu er gefinn kostur á því, sérstaklega með nýju ákvæði, að það fólk geti óskað eftir dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er ekkert Evrópuland með sambærilegar reglur og við og þess vegna höfum við séð gríðarlega aukningu á þessum hópi hér sem almennt leiðir til neikvæðrar niðurstöðu. Það að hraða málsmeðferð þeirra sem fá neikvæða niðurstöðu í kerfinu okkar er skynsamlegt til að bæta þjónustuna og hraða málsmeðferð þeirra sem fá jákvæða niðurstöðu en bíða allt of lengi í dag eftir þeirri niðurstöðu.