151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég sagði að það væri alrangt að vegna vinnu við að hraða málsmeðferð í efnahagsbrotum væri verið að setja það í meiri forgang en málsmeðferð kynferðisbrota sem hafa verið í skýrum forgangi allt frá 2018 með nýrri aðgerðaáætlun. Ég sagði að það væri alrangt. Ég veit hver staðan er. Ég er að fullu upplýst um þá stöðu sem við viljum ekki sjá, að dómar verði vægari vegna kerfisins. Það er það sem við erum að ráðast gegn með auknu fjármagni í þessum málum. Það þarf bæði að ráðast að rót vandans en líka á halann og það erum við að gera varðandi boðunarlistann í fangelsi, mjög skýrar og afdráttarlausar tillögur um aukna samfélagsþjónustu, betri nýtingu á fangelsisplássunum okkar og náðun þeirra sem beðið hafa lengur en í þrjú ár og hafa ekki brotið af sér síðan, af því að í þeirri bið felst líka refsing. Við sjáum allt of marga dóma fyrnast, nokkra á ári, og þá eyðum við varnaðarsjónarmiðum sem við viljum hafa uppi við refsingar. Það er þess vegna sem ég hef lagst í þessa miklu vinnu, til að stytta boðunarlistann, og þó að það sé eftirávandi en ekki rót vandans þurfum við að gera hvort tveggja. Fangelsisplássið okkar í dag rúmar nokkuð vel þá sem dæmdir eru til refsingar á hverju ári, en afplánunarárum hefur fjölgað síðustu ár.

Ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að það þarf að fylgja vel eftir aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrota. Það þarf að gæta að málshraðanum og auka hann. Stafræn réttarvörslugátt verður eitt af því sem sérstaklega er fjallað um í þessari fjármálaáætlun. En síðan þarf líka að stytta boðunarlistann af því að það felst í því refsing að bíða. Þannig getum við lagað kerfið frá öllum endum.