151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum enn um fjármálaáætlun til 2026 og ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í það. Stefnt var að því að settar yrðu á rafrænar þinglýsingar. Mig langar að vita hvernig þeirri vinnu hefur miðað. Hefur sú vinna fengið forgang í ljósi þess hve gagnlegt það yrði að geta þinglýst gögnum rafrænt í stað þess að þurfa að mæta á staðinn þegar faraldurinn geisar? Í fjármálaáætlun haustsins kom fram markmið um að bæta málsmeðferðartíma fyrir dómstólum. Stefnt er að því að í ár verði meðferðartími í héraði 300 dagar og styttri en 12 mánuðir fyrir Landsrétti og styttri en 12 mánuðir fyrir Hæstarétti. Hver er staðan í dag og hefur Covid sett strik í reikninginn hvað þetta varðar? Hafa dómstólar lagt aukna áherslu á innleiðingu fjarlausna til að tryggja sóttvarnir og koma í veg fyrir röskun á starfsemi? Í fjármálaáætlun haustsins kom fram markmið um að fyrir árið 2025 verði viðbragðstími í útköllum í forgangsflokki innan við tíu mínútur. Einnig kom fram það markmið að fyrir árslok í ár liggi fyrir mælingar á viðbragðstíma í umdæmum landsins. Hver er staðan á því verkefni? Hafa mælingar verið framkvæmdar? Hver er staðan þegar kemur að mönnun? Hversu nálægt erum við markmiðinu um að fyrir árið 2025 verði útkallsökutæki laust og mannað til að sinna 90% tilvika í forgangsflokki F1 og F2 og 70% tilvika í forgangsflokki F3 og F4.