151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessar upplýsingar. Ég tek heils hugar undir með henni um rafrænar þinglýsingar; það verður þvílíkt framfaraskref. Við vitum það öll sem höfum þurft, sérstaklega eins og það var áður fyrr, að standa í þessu sjálf. Sem betur fer er það ekki mjög algengt. En það er annað sem ég vona að sé líka í framtíðarsýn hennar og það er það sem við höfum áður tekist á um og varðar uppfærslu fjármuna í skaðabótalögum, þ.e. að tölur séu uppfærðar samkvæmt launavísitölu og endurspegli launastrúktúr og tekjur þeirra sem lenda í slysi þannig að þeir fái eins raunverulegar bætur og hægt er. Ég vona heitt og innilega að svo verði fljótlega. Ég vona, ef ráðherra verður áfram í ríkisstjórn, að þessu verði ekki frestað næstu fjögur árin. Það stóð til á þessu kjörtímabili að gera þetta en það virðist ekki hafa gengið eftir. Síðan er það gjafsókn fyrir þá sem standa höllum fæti og geta ekki barist við kerfið, bæði ríkiskerfið og tryggingafélögin; ég spyr hvort eitthvað sé verið að auka í það. Og svo er það hitt sem við höfum líka rætt: Hvernig gengur að sjá til þess að ekki sé hægt að finna persónuupplýsingar, mjög viðkvæmar sjúkraupplýsingar, í dómsorðum og þær séu ekki söluvara á markaði?