151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um þann hluta fjármálaáætlunar 2022–2026 sem snýr að heilbrigðismálum. Útgjöld til heilbrigðismála eru fyrirferðarmest allra málaflokka á tímabili þessarar áætlunar en þau nema 31% rammasettra útgjalda áætlunarinnar. Rekstrarframlög til heilbrigðismála hafa aukist mikið á kjörtímabilinu og verða framlög til rekstrar orðin tæplega 267 milljarðar kr. á árinu 2022. Fjárframlög vegna fjárfestinga, þ.e. framkvæmda, vega líka þungt í heilbrigðishluta áætlunarinnar og verða um 27 milljarðar árið 2022. Um 19 milljörðum kr. hærri fjárhæð verður lögð í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu á árinu 2022 en árið 2017 en sú aukning skýrist að stærstum hluta af framkvæmdum vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut.

Í Covid-19 faraldrinum hefur verið lögð áhersla á að verja innviði samfélagsins og vernda þann árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu í velferðar- og heilbrigðismálum. Þessi fjármálaáætlun markast einnig af þeirri áherslu. Því má í henni sjá áframhaldandi áherslu á styrkingu heilbrigðiskerfisins. Ég nefni nokkur atriði sem lögð er áhersla á í heilbrigðismálunum:

a. NLSH: Bygging nýs Landspítala er risavaxið verkefni sem lögð er áhersla á að fjármagna í fjármálaáætlun. Á fjárlögum ársins 2021 renna 12 milljarðar til framkvæmda vegna verkefnisins. Samkvæmt fjármálaáætlun munu um 14 milljarðar renna í bygginguna árið 2022, rúmlega 15 milljarðar árið 2023 og svipaðar upphæðir árlega til ársins 2026. Samtals renna því rúmlega 70 milljarðar í byggingu nýs Landspítala á tímabili fjármálaáætlunar. Fram undan eru meiri umsvif í byggingarframkvæmdum. Uppsteypa meðferðarkjarna er hafin og verður samkvæmt áætlunum lokið árið 2023. Framkvæmdir við önnur hús á lóðinni eru í burðarliðnum, svo sem rannsóknarhús og tvö bílastæðahús. Það skiptir miklu að við höldum framkvæmdum við nýjan Landspítala áfram en nýbyggingarnar verða bylting í heilbrigðisþjónustu og munu gjörbreyta allri aðstöðu spítalans til hagsbóta fyrir starfsmenn, sjúklinga og aðstandendur

b. Grensás: Næst má nefna viðbyggingu við Grensás sem einnig er fjármögnuð að fullu í fjármálaáætlun. Á fjárlögum ársins 2021 runnu 300 milljónir til undirbúnings viðbyggingar Landspítala við Grensás og 200 milljónir árið 2020. Verkefnið er löngu tímabært og mun bæta aðstöðu til endurhæfingar á Grensási til muna. Núverandi húsnæði er nær 50 ára gamalt og stenst varla nútímakröfur fyrir sjúkrahúsþjónustu. Gert er ráð fyrir rúmlega 30 endurhæfingarrýmum á tveimur sólarhringsdeildum og öll aðstaða verður til fyrirmyndar. Framkvæmdir við viðbygginguna eru fjármagnaðar í fjármálaáætlun en árin 2022–2024 eru 2,4 milljarðar eyrnamerktir framkvæmdinni sem kostar í heild samtals um 2,9 milljarða kr.

c. Aðrar framkvæmdir: Einnig má nefna mikilvægar framkvæmdir á landsbyggðinni. Á Akureyri verða tvær heilsugæslustöðvar í stað þeirrar sem nú er og áformað er að byggja nýjar legudeildir við Sjúkrahúsið á Akureyri. Á Selfossi stendur yfir undirbúningur að viðbyggingu við sjúkrahúsið ásamt endurbótum á húsnæðinu og í Reykjanesbæ er hafinn undirbúningur að endurbótum á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og byggja á nýja heilsugæslustöð.

d. Greiðsluþátttaka sjúklinga: Hún lækkar um 800 millj. kr. á ári til ársins 2025 og hefur lækkað um 3,2 milljarða á tímabili fjármálaáætlunar. Árin 2020–2021 hafði greiðsluþátttaka sjúklinga verið lækkuð um 1,1 milljarð kr. og nemur lækkunin í heild því 4,3 milljörðum kr. frá og með árinu 2020. Það hefur verið mitt markmið að greiðsluþátttökuhlutfall íslenskra heimila af heilbrigðisútgjöldum verði sambærilegt því sem best gerist á Norðurlöndum. Árið 2018 nam hlutdeild íbúa Norðurlandaþjóðanna í heilbrigðiskostnaði 15,2% að meðaltali, sem eru nýjustu tölur sem til eru yfir Norðurlandameðaltalið. Samkvæmt fjármálaáætlun má ætla að hlutfallið á Íslandi verði komið niður í 13–14% árið 2025 og markmið okkar um sambærilegt greiðsluhlutfall og annars staðar á Norðurlöndunum því í höfn. Það verður gríðarlega merkur áfangi en lækkun greiðsluþátttöku er stærsta og mikilvægasta jöfnunaraðgerð sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ráðist í á kjörtímabilinu.

Loks vil ég nefna geðheilbrigðismál. Ég hef lagt mikla áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar en samtals hafa framlög til geðheilbrigðismála verið aukin um rúman 1,1 milljarð frá því að ríkisstjórnin tók við. Þessi hækkun hefur skilað sér í stóraukinni geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og fullri mönnun geðheilsuteyma, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Fjárframlög til geðheilbrigðisþjónustu hækka árlega um 100 millj. kr. árin 2022–2025 og í lok ársins 2026 verður hækkun til geðheilbrigðismála því orðin samtals 1.555 millj. kr.

Þau atriði sem ég hef farið hér yfir í stuttu máli endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og væntanlega verða þær áherslur líka við lýði fram í tímann.