151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit að við hv. þingmaður deilum áhuga á endurhæfingarþjónustu og uppbyggingu þar í kring. Í samskiptum okkar í þinginu hefur áður komið fram mikilvægi þess að setja raunhæfa endurhæfingarstefnu fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og aðgerðaáætlun á grundvelli hennar og það hefur verið gert. Þar á meðal er viðbygging við Grensás þar sem munu rísa 13 endurhæfingarrými í núverandi húsnæði legudeildar og 19 í nýbyggingu þannig að þau verða samtals 32. En þörfin fer ört vaxandi, eins og hv. þingmaður bendir á, samhliða miklum framförum í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Húsnæðið á Grensás er nær 50 ára gamalt og stenst engan veginn nútímakröfur sem birtist í skorti á ýmiss konar grunnaðstöðu. Það hefur nú þegar farið fram mikill undirbúningur við frumhönnun og þar verður öll þjálfunaraðstaða og meðferðarrými til fyrirmyndar og uppbyggingin mun gjörbylta aðstöðu til endurhæfingar þar og þar með endurhæfingarþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna hlut Reykjalundar sem hefur að mörgu leyti verið ákveðinn burðarás í endurhæfingarþjónustu á Íslandi. Mér finnst afar mikilvægt að það sé aukið samstarf á milli Grensáss og Reykjalundar í endurhæfingarstefnunni sem við höfum nú samþykkt og hafið framkvæmd á en ekki síður þær aðstæður til endurhæfingar sem hv. þingmaður nefnir, bæði fyrir norðan og í Hveragerði. Þetta þarf allt að mynda eitt samfellt net en fyrst og fremst þarf hugmyndafræði endurhæfingar að vera partur af allri heilbrigðisþjónustu, allt frá heilsugæslu og í gegnum okkar flóknustu spítalaþjónustu.