151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:28]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að hugmyndafræði endurhæfingar þarf að umlykja alla þá heilbrigðisþjónustu sem við bjóðum og þiggjum hér á landi. Mig langar aðeins að halda áfram með þessa spurningu. Þann 18. janúar síðastliðinn fékk ég þær upplýsingar frá hinni góðu rannsóknarþjónustu þingsins að samkvæmt svari frá Sjúkratryggingum Íslands hefðu 240 einstaklingar yngri en 67 ára verið á hjúkrunarheimilum árið 2020. Aldurinn skiptist svona: 21–30 ára var einn, 31–40 ára voru þrír, 41–50 ára voru 13, 51–60 ára voru 78, 61–66 ára voru 145. Þetta eru samtals 240 einstaklingar. Hvíldarrými eru sögð 72.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, með tilliti til fyrri spurningar og svars, hvort og hvernig ætlunin er að koma til móts við þessa einstaklinga á komandi misserum. Er nægjanlegt fjármagn veitt til þeirra hjúkrunarheimila þar sem þessir 240 einstaklingar búa svo þau geti að fullu staðið að raunhæfri endurhæfingu, þar sem við segjum að hugmyndafræði endurhæfingar eigi að umlykja allt heilbrigðiskerfið?