151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna sérstaklega til sögunnar þann hóp sem nýtur þjónustu hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma en er yngri en þau sem yfirleitt eru á hjúkrunarheimilum. Það er hópur sem þarf oftar en ekki mjög sérhæfða þjónustu og oftar en ekki þarf þjónustan líka að vera mjög einstaklingsmiðuð og oft mjög blönduð og þverfagleg. Við höfum verið með það markmið að útbúa sértæka endurhæfingu fyrir unga hjúkrunarsjúklinga. Þau verkefni eru í burðarliðnum og eru algerlega í samræmi við heilbrigðisstefnu okkar og endurhæfingarstefnu. Ég vonast auðvitað til þess að þau nái að líta dagsins ljós áður en þetta kjörtímabil er á enda ella verði þau alla vega komin á nægilega góða siglingu til að þau nái til hafnar óháð því hvernig kosningar fara.

Af því að hv. þingmaður spurði um fleiri staði og almennt um umbúnað utan um endurhæfingu langar mig líka að nefna bakdeildina í Stykkishólmi. Við höfum verið að bæta aðstöðu þar sem hefur verið mjög sértæk og mikilvæg aðstaða fyrir sjúklinga með bakvandamál. Það hefur verið mjög ánægjulegt að geta tekið þátt í því að ráðstafa auknu fjármagni til þeirrar þjónustu.