151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Fjármálaáætlunin lofar engu þegar kemur að nauðsynlegu fjármagni til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma um land allt. Að því leyti kemur ríkisstjórnin hreint fram, a.m.k. er engin aukning í málaflokkinn heldur er dregið úr á sama tíma og öldruðum fjölgar. Á sama tíma og miklu fjármagni er sóað í að láta fólk með færni- og heilsumat dvelja í dýrum sjúkrarýmum í stað ódýrari hjúkrunar- og dvalarrýma, óhentugum úrræðum fyrir þessa einstaklinga á síðustu árum æviskeiðs síns, er hjúkrunarrýmum fækkað á landsbyggðinni. Tökum dæmi: Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga er pláss fyrir 20 heimilismenn í hjúkrunar- og dvalarrýmum en fjármagn skorið við 14, rúmin standa auð. Á Hvolsvelli er ekki boðið upp á varanlega nýtingu rýma heldur bara bráðabirgðanýtingu fram á næsta ár en þá skal skorið niður um sjö. Hvers vegna? Jú, einfaldlega vegna þess að fjárhæð daggjalda sem fylgja einstaklingum í dvöl dugar ekki fyrir rekstrinum og þess vegna þarf að tæma rúmin. Því þarf að haga málum þannig að spara í rekstrinum með því að fylla ekki þessi rúm.

Herra forseti. Í fjármálaáætlun segir að á árinu verði unnið að endurmati útgjalda vegna hjúkrunarþjónustu við aldraða í samvinnu heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Þá komum við að niðurstöður Gylfanefndar sem greina skyldi raungögn um rekstrarkostnað hjúkrunarheimila því að allir rekstraraðilar hafa áratugum saman bent á að daggjöldin dugi ekki fyrir raunkostnaði. Skýrsla nefndar var send ráðuneyti fyrir hálfum mánuði og spyr ég, þar sem ég vænti þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sé kunnugt um innihald skýrslu Gylfanefndarinnar: Má vænta þess að ríkisstjórnin heimili Alþingi að hækka framlög til hjúkrunarheimila við meðferð þessa máls hér á þingi eða munu rekstraraðilar áfram þurfa að hafa tóm rúm vegna vanfjármögnunar?