151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég spurði hvort heimilað yrði að sett verði aukið fjármagn í málaflokkinn og ég vona að ég fái svar við því þar sem búast má við að Gylfanefndin sýni svart á hvítu að þetta hefur verið vanfjármagnað hingað til. Í síðustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þessari sem ætlunin var að starfa eftir árið 2020–2024, var hjúkrunarþjónusta, svo sem hjúkrunarheimili, að lækka á fimm árum um 3,3% þrátt fyrir mikla fjölgun eldri borgara. Við getum ekki dregið saman í hópnum, eldri borgurum fjölgar. Það er staðreynd. Í þeirri áætlun sem nú er rædd, sem talað var um að væri óbreytt vegna þess að eftir hálft ár skuli gengið til kosninga, lækka framlögin aftur um rúm 4% þrátt fyrir að enn fjölgi öldruðum. Hvernig getur þetta átt sér stað? Heimaþjónustan er vissulega góðra gjalda verð en þegar fólk er komið með færni- og heilsumat þýðir það í raun að fólk getur ekki búið heima hjá sér heldur þarf þessa þjónustu annars staðar, á hjúkrunarheimilum. Þetta eru einstaklingar sem hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins og maður skyldi ætla að þeir ættu að eiga kost á að dvelja í heppilegu rými en ekki inni á sjúkrastofnunum, inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem ítrekað hefur bent á að útskriftarvandi komi í veg fyrir að hægt að sé að fylgja ýtrustu öryggis- og gæðakröfum. Hækkun ársins skýrist af byggingu rýma en ekki rekstri. Og af því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað hér í pontu um að henni þyki vænt um ríkissjóð þá spyr ég aftur: Eigum við ekki einmitt að reyna að ráðstafa fé þannig að best fari, ekki í rúm á Landspítalanum sem kostar 150.000–200.000 (Forseti hringir.) heldur í hjúkrunarheimili sem kosta 40.000 kr. sólarhringurinn eða rúmlega það?