151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður tók eftir þá fór ég yfir það sérstaklega að við gerum ráð fyrir 1.350 millj. kr. á þessu ári einmitt til að fjölga hjúkrunarrýmum hér á höfuðborgarsvæðinu. Við gerum ráð fyrir 544 millj. kr. til viðbótar á næsta ári til reksturs hjúkrunarrýma, 250 millj. kr. á árinu 2022 til heimahjúkrunar þannig að við erum að auka þessa þjónustu. En af því að hv. þingmaður staldraði sérstaklega við framlög, eða spurði um það, til hjúkrunar- og endurhæfingarmála langar mig, til að varpa aðeins ljósi á stöðuna, að nefna þessar 300,8 milljónir sem komu tímabundið inn á árið 2021 og fóru í aukna hjúkrunarþyngd sem hv. fjárlaganefnd setti inn og allt sem hv. fjárlaganefnd setur inn er tímabundið, það er til eins árs, og skýrir að hluta til þann mun sem er á árinu 2021 og á árinu 2022. Það er hins vegar rétt, sem hv. þingmaður segir, að á seinni hluta fjármálaáætlunarinnar vantar að hluta til inn í rekstrarhlutann. Það er eitthvað sem heilbrigðisráðuneytið hefur ítrekað haldið til haga og við höfum haldið til haga við hv. velferðarnefnd. En ég vona að það geti farið saman, virðulegi forseti, að þykja vænt um ríkissjóð og líka að leggja sitt af mörkum til að ná saman heildstæðri stefnu til að sinna ört stækkandi hópi eldra fólks á Íslandi. Það er fólk sem á skilið bestu mögulegu þjónustu og fyrst og fremst þjónustu sem gerir fólki kleift að vera lengi heima, eins lengi og það sjálft kýs, með sveigjanlegum og fjölbreyttum úrræðum. Það er það sem við höfum lagt áherslu á á þessu kjörtímabili jafnframt því að byggja upp ný hjúkrunarheimili.