151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður er mér algerlega sammála um það hversu ófyrirsjáanlegur þessi faraldur er og hversu oft og iðulega við höfum þurft að bregðast við á Alþingi. Þingið hefur í raun staðið saman eins og einn maður í því að fara í gegnum ítrekaðar fjáraukatillögur o.s.frv. aftur og aftur á árinu 2020 vegna faraldursins, vegna þess að við töldum til að byrja með að hann tæki miklu skemmri tíma en hann síðar gerði o.s.frv. Nú ári síðar erum við svo í raun og veru enn með mjög aðþrengjandi samgöngubann og ég held að ekkert okkar hafi órað fyrir því á hvaða stað við yrðum í dag. Að jafnaði höfum við brugðist við faraldrinum í gegnum sértækar aðgerðir vegna þess hversu snúið það er að setja faraldurinn inn í almennar áætlanir, þar sem við erum að tala um þennan hefðbundna rekstur, rammasett útgjöld og slíkt. Nú er fjármálaáætlun og auðvitað fjárlög sett þannig saman að þar er svigrúm. Það er ákveðið útgjaldasvigrúm, það er ákveðinn hluti fyrir ófyrirséð útgjöld. Við gerum ráð fyrir því að við getum komið fram með fjárauka eða að eitthvað gerist sem við gerðum ekki ráð fyrir.

Mig langar til að segja, af því að hv. þingmaður vék sérstaklega orðum að því, hvað það er sem við sjáum við sjóndeildarhring. Nú erum við auðvitað að tala um ný afbrigði veirunnar sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig haga sér. Við erum að tala um afbrigði sem smitast meira milli barna. Við erum að tala um bóluefni sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig virkar á stökkbreytta afbrigðið o.s.frv. En ég held að það sem við komum til með að þurfa að skoða a.m.k., eða horfast í augu við, þó að ekki verði nema við fjárlagagerðina fyrir árið 2022, sé bóluefni á því ári.