151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Ég er sammála hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún kom ekki beint með svör enda kannski erfitt að svara þessu, þetta var meira um hvernig samtalið hefur verið hjá sóttvarnayfirvöldum sem sjá mögulegu sviðsmyndirnar og hvernig það skilar sér til fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytisins varðandi það hvort líklegasta sviðsmyndin sé að það komi 700.000 ferðamenn núna. Ég er svolítið að horfa á á hverju það byggir, byggir það á bestu upplýsingunum sem sóttvarnayfirvöld hafa núna eða bestu upplýsingunum þegar þetta var í vinnslu? Það er oft þannig að mál skila sér til þingsins og svo breytast hlutirnir og þeir breytast sérstaklega hratt núna. Er þetta bjartsýnni eða svartsýnni sviðsmynd, 700.000 ferðamenn á ári, miðað við nýjustu stöðuna í dag? Við erum náttúrlega að ræða þetta í dag og samþykkja í þinginu í dag þannig að það gæti þurft að breyta því eitthvað núna í ljósi nýrra atburða. Ég var persónulega orðinn tiltölulega bjartsýnn með ferðasumarið áður en upplýsingar um nýja afbrigðið bárust. Þegar slíkum smitum fer að fjölga verður lengra í hjarðónæmið og mögulega þarf að herða aðgerðir þegar kemur að börnum, sem hefur síðan gríðarleg ruðningsáhrif inn í allt samfélagið. Þetta skiptir því mjög miklu máli.

Það er þetta sem ég spyr um, sviðsmyndir og stöðuna núna og hverju myndi þurfa að breyta í fjármálaáætlun í ljósi þeirra upplýsinga sem sóttvarnaryfirvöld hafa í dag. Svo var það aðeins um hjúkrunarrými, stöðu þeirra og hvernig þessi fjármálaáætlun færir okkur lengra í rétta átt. Þetta var einn þriðji af fráflæðisvandanum á Landspítalanum þegar ég skoðaði það fyrir þó nokkrum árum, þ.e. skortur á hjúkrunarrýmum. Hver er staðan í dag og hvert erum við að færa okkur með þessari fjármálaáætlun?