151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Á sama tíma og við rýnum fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 er rétt að líta yfir farinn veg. Það mæðir mikið á okkar öfluga framlínustarfsfólki í heilbrigðisstéttinni vegna heimsfaraldursins og eiga þau hvert og eitt þakkir skildar fyrir sitt óeigingjarnan starf. En það er fleira sem mæðir á heilbrigðiskerfinu en bara veiran. Biðlistar eru stórt vandamál sem virðist hafa stækkað nokkuð á kjörtímabilinu. Ég nefni breytingar á framkvæmd krabbameinsskimana sem hafa verið í deiglunni. Það hefur þrengt að starfstækifærum sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga. Ég vil líka nefna niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu sem Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum en er ekki fjármögnuð. Ég sé ekki að þessi álitaefni eða vandamál séu nefnd eða tekin sérstaklega fyrir í fjármálaáætluninni og á þar við að það er enginn sérstakur kafli um það hvernig til stendur að fjármagna bætta þjónustu að þessu leyti.

Í áætluninni er nokkuð fjallað um skipulag framkvæmda við nýja Landspítalann og mikilvægi þess að endurskoða skipulag fjárfestinga og framkvæmda til að tryggja skýra forgangsröðun og góða nýtingu fjármuna. Það er auðvitað mikilvægt og ég tek heils hugar undir það. En ég spyr: Ber heildarmyndin með sér að sérstök áhersla sé lögð á fyrirliggjandi vanda vegna biðlista og geðheilsu sem kórónuveirufaraldurinn hefur magnað upp? Þess vegna vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort og þá hvaða fjármagn verði sett sérstaklega í það núna að tækla biðlistavandann, eins og ég hef verið að fjalla um hér og kannski ekki síst í samhengi við niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Spurning mín til ráðherra er sem sagt: Er verið að setja sérstakt fé í það núna að tækla biðlistavandann innan kerfisins?