151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin en verð að viðurkenna að ég átta mig ekki almennilega á því hvaðan hún kemur með sýn sína á málflutning Viðreisnar. Það liggur fyrir, eins og ráðherrann nefnir, að þessu hafa fylgt 100 millj. kr. Ég held að við áttum okkur báðar á því að það er engin veruleg upphæð sem raunverulega dugir til að ná því markmiði sem þingið var einhuga um að ná. Vissulega er rétt að ráðherra fékk með þessu heimild og við höfum ýtt á að hún notfæri sér þá heimild og fari að vilja þingsins að því leyti.

En mig langar til að beina sjónum að kostnaðargreiningu í heilbrigðiskerfinu. Hæstv. ráðherra hefur unnið að innleiðingu svonefndrar DRG-kostnaðargreiningar við kaup á sjúkrahúsþjónustu og sambærilegri þjónustu sem veitt er í einkarekstri utan sjúkrahúsa, sem er mikilvægt skref til að tryggja skilvirkni og samræmingu í þjónustukaupum innan kerfisins. En vinnan hefur, eins og við þekkjum, tekið töluverðan tíma. Einn helsti ókostur núverandi kerfis er kannski skortur á gagnsæi. Sá skortur vinnur óhjákvæmilega gegn vinnu við að geta greint sóknarfærin okkar í að gera kerfið hagkvæmara. Á það hefur líka verið bent af hálfu sérfræðinga að núverandi fyrirkomulag kunni að hafa letjandi áhrif á framleiðni innan kerfisins, þ.e. að við séum í einhverjum tilvikum jafnvel að veita minni þjónustu en við gætum verið að veita. Þess vegna liggur á að koma á fót skýrara og gagnsærra kerfi. Mig langar í því sambandi til að spyrja hæstv. ráðherra tvíþættrar spurningar: Hvað líður ferlinu við innleiðingu þessarar kostnaðargreiningar og gætir áhrifa innleiðingar í fjármálaáætluninni sem við erum að ræða hér í dag?