151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það fjármögnunarkerfi sem hv. þingmaður nefnir hér er verið að útfæra bæði fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri núna. Gert er ráð fyrir því í heilbrigðisstefnu, og í raun í þeirri áætlun sem við erum að vinna samkvæmt, á allra næstu árum að innleiða DRG í alla heilbrigðisþjónustu og þar þurfum við auðvitað að hafa ítarlega kostnaðargreiningu, ekki bara í opinbera heilbrigðiskerfinu heldur líka í kerfinu sem hefur verið rekið samkvæmt samningum.

Mig langar líka að nefna heilsugæsluna sem hefur verið með sérstakt fjármögnunarkerfi og hefur fengið töluverða reynslu hér á höfuðborgarsvæðinu og við höfum verið að skuggakeyra á þessu ári fyrir landsbyggðarheilsugæsluna. Þar erum við í raun að tala um að fjármögnunin sé þjónustutengd, þ.e. að hún endurspegli þá þjónustu sem verið er að veita en taki líka mið af mismunandi félagslegum þáttum sem snúast stundum um dreifbýl svæði, stundum um að félagsleg samsetning sé með einum hætti frekar en öðrum o.s.frv. Þetta hefur gefist mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og við sjáum að það mun hafa mjög jákvæð áhrif á landsbyggðinni sömuleiðis. Þá sé ég fyrir mér a.m.k., og í samræmi við heilbrigðisstefnu og þessa áætlun sem við höfðum verið að leggja upp með, að öll heilbrigðisþjónusta verði bæði kostnaðargreind og fjármögnuð að mestu leyti í samræmi við þessi kerfi.