151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Ég er innilega sammála henni að því leyti til að við þurfum að ná tökum á þessum biðlistum og við þurfum að hafa einhvern gagnagrunn sem tekur á biðlistum til að fara inn á biðlista og þá biðlista þar sem fólk veit kannski ekki hvort það vill fara í úrræðið eða vill fara eitthvert annað. En við erum með mjög góðan grunn, og það væri hægt að byggja upp svipað kerfi, og það er heilsuvera.is. Það er alveg frábær grunnur. Ég segi fyrir mitt leyti að það hefur auðveldað mér gífurlega að ná í bæði heimilislækni og við endurnýjun lyfja og annað sem ég þarf á að halda. Ég er að spá í hvort það væri hægt að hafa eitthvert eftirlit með þessu biðlistakerfi þar, hvort það gæti ekki einmitt passað þarna inn og hægt að halda utan um þetta?

Það sem við höfum miklar áhyggjur af er hvað þetta Covid-ástand varir lengi. Vonandi verðum við komin í var seinni part sumars. En þá spyr ég mig, af því að við erum með yfirfulla spítala af eldri borgurum, eins og hefur komið fram, og það er dýrasta úrræðið: Sér ráðherra fram á að hægt verði að leysa þetta mál fljótt og vel vegna þess að eitthvað þarf að gera? Eins og hefur komið fram í umræðunni þá verðum við að finna auðveldari leið til að hjálpa og hjúkra okkar eldri borgurum en að hafa þá á sjúkrahúsi sem er bæði dýrt og óþægilegt kerfi og ekki á neinn hátt mannúðlegt að vera með fólk þar inni að óþörfu.