151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þingmanni fyrir að nefna Heilsuveru vegna þess að eitthvað gott erum við að taka út úr Covid. Við sjáum hversu vel Heilsuvera nýtist fólki, bæði til að endurnýja lyf og til að tala við heilbrigðisstarfsfólk í gegnum spjallið. Það hefur gefist gríðarlega vel. Ég er mjög ánægð með þá uppbyggingu af því að hún hefur í raun og veru verið margföldun á þeirri þjónustu og hjálpar mjög mikið til við það að við þurfum ekki alltaf að leggja land undir fót til að tala við heilbrigðisstarfsfólk eða fá heilbrigðisþjónustu.

Ég held að það sé líka hárrétt hjá hv. þingmanni að það miðlæga kerfi sem við erum að tala um hér varðandi biðlistana ætti mjög vel heima þar. Ég hef séð alveg gríðarlega flott kerfi hjá Norðmönnum þar sem við sjáum bara alla aðgerðastaðina listaða upp á einum stað og það er lifandi kerfi þar sem maður getur skoðað, hvernig biðröðin hreyfist á hverju sjúkrahúsi sem veitir tiltekna þjónustu. Þarna erum við til að mynda að tala um mjaðma- og hnjáliðskipti. Það held ég að sé mjög mikilvægt.

Hv. þingmaður spyr um aldraða og ég þreytist ekki á að segja að ég held að það sé alveg óendanlega mikilvægt að við séum með fjölbreyttari, persónulegri og einstaklingsmiðaðri úrræði fyrir gamalt fólk. Ekki þannig að maður breytist í einhvern málaflokk þegar maður verður gamall heldur að maður fái þá þjónustu sem maður óskar eftir og manni ber inn á eigin heimili ef maður vill. Síðan byrji kannski dagdvölin sem stutt dagdvöl með tiltölulega einfaldri endurhæfingu og svo vaxi þjónustan eftir því sem maður vill og síðan komi kannski að hjúkrunarheimili þegar umönnunarþyngdin eða þjónustuþyngdin eykst. Þannig myndum við vilja hafa þetta og þess vegna höfum við verið að auka í þessi úrræði undanfarin ár. En við þurfum að gera enn betur.