151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra; auðvitað þurfum við að hafa sveigjanleika í ríkiskerfinu og við þurfum líka að geta samþætt þær auðlindir, ef það má orða þannig, sem við höfum í kerfinu eða þá ferla og annað sem við getum gripið til. Um það deilum við ekki, held ég. En ég hef hins vegar áhyggjur af því, svona miðað við þau verkefni sem fram undan eru og miðað við þær væntingar sem við höfum sett okkur miðað við þá framtíðarsýn sem við höfum að við þurfum að stækka, víkka út og auka þá þjónustu sem utanríkisþjónustan veitir. Við þurfum að viðurkenna það. Ég held að við náum því ekki með því að samþætta og færa til innan húss eða milli stofnana. Ég held að við gerum það ekki. En eins og hæstv. ráðherra sagði þá verður það kom í ljós.

Mig langar hins vegar spyrja, í ljósi þess að fram undan er mikil þörf á framkvæmdum við varnarmannvirki á Íslandi, ég man nú ekki alveg þá tölu en ég ætla að segja, til að vera svolítið varkár, að það séu alla vega einhverjir milljarðar ef ekki tugir milljarða sem óskir bandamanna okkar hljóða upp á. Er þá gert ráð fyrir því að Íslendingar standi við sinn hlut í þessari fjármálaáætlun eða er gert ráð fyrir að það komi öðruvísi inn eða síðar? Það er mjög mikilvægt að við förum í þær framkvæmdir sem þarna er talað um eins fljótt og auðið er, það er í rauninni skylda okkar.

Síðan ætla ég bara að ítreka að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að okkar ágæta og stórgóða utanríkisþjónusta, sem gerir í rauninni góða hluti hvern einasta dag miðað við stærð, að mínu viti, fái að vaxa, ég vil að það komi skýrt fram, vegna þess að staða Íslands landfræðilega, viðskiptalega, og þegar við horfum á það sem skiptir okkur mestu máli, þ.e. sáttmálana, er slík að við verðum að vera á tánum alls staðar.