151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:38]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég held áfram í framboðsræðunum. Þegar ég segi frá því hvað við erum að gera þá er það vegna þess að við erum að byggja fyrir framtíðina og ætlum að halda því áfram. Við höfum lagt mikið í undirbúning vegna þess að við erum að fara í vegferð, við erum að fara í langferð. Það sem við gerðum strax og þessi faraldur kom upp var að forgangsraða í þróunarsamvinnu, það sem snýr að faraldrinum. Við höfum t.d. sett 500 millj. kr. í COVAX, sem er nákvæmlega þetta, þ.e. í bólusetningarátakið. Þessum hlutum lýkur ekki þar.

Hv. þingmaður vísaði í Úganda og Malaví. Við erum líka að fara meira á vesturströnd Afríku, eins og til Síerra Leóne, og höfum sömuleiðis samstarf við Líberíu. Þessu verður haldið áfram, því miður eru endalaus verkefni. Að vísu var ég að tilkynna aukin framlög til Sýrlands af augljósri ástæðu. Það er af nógu að taka, en við höfum forgangsraðað nákvæmlega í faraldrinum af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi og ég ætla ekki að endurtaka.

Það er mjög langsótt að við græðum á þessu útflutningsbanni Evrópusambandsins. Ég las þá frétt og get ekki skilið hvernig í ósköpunum menn geta komist að þeirri niðurstöðu enda eru það ekki góðar fréttir fyrir okkur, eins og ég fór yfir.

En varðandi Íslandsstofu: Hún getur ekki verið eyland eða þá utanríkisþjónustan. Það verður að gera þetta með atvinnulífinu. Þess vegna setti Útflutnings- og markaðsráð, sem er búið að sameinast, þær áherslur sem það er með á erlendum mörkuðum. Það eru 400 aðilar sem koma að þessu. En það er ekki bara það, fyrirtækin voru spurð: Hvar viljið þið starfa? Því að hið opinbera getur ekki bara vaðið af stað ef atvinnulífið kemur ekki með. Hið opinbera selur ekki einn fisk eða nokkurn skapaðan hlut. Það er atvinnulífið sem gerir það. Við getum bara opnað dyr, en við verðum að gera þetta saman og við verðum að gera þetta með atvinnulífinu. Atvinnulífið lagði upp svæðin sem leggja á áherslu á og því er fylgt. Eftir því munum við vinna. Við verðum að gera þetta með atvinnulífinu. (Forseti hringir.) Það getur ekki verið þannig að við hér á Alþingi ákveðum að fara í eitthvert land ef atvinnulífið sér ekki tækifæri í því eða fylgir því ekki eftir.