151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég held að sá sem hér stendur og hæstv. utanríkisráðherra deilum þeirri skoðun að utanríkisþjónustan sé gríðarlega mikilvæg og það sé bráðnauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að reka öfluga utanríkisþjónustuna. Ég vil líka segja að hæstv. utanríkisráðherra hefur að mörgu leyti staðið sig vel að mínu mati. Við erum kannski ekki sammála um nokkra þætti í utanríkispólitíkinni, en ég ætla ekki að gera það að umtalsefni hér.

Nú veit ég að hæstv. ráðherra er í nánu og miklu sambandi við bresk stjórnvöld. Mig langar að spyrja hvort hann hafi innt bresk stjórnvöld eftir því hvernig þau hugsa það ferðabann sem þau setja á Breta, að viðlögðum gríðarlegum sektum. En við stólum á það, eða höfum gert það, að hingað komi fjöldi ferðamanna, ekki síst frá Bretlandi. Það er heldur bagalegt ef Bretar mega ekki ferðast hingað. Það er því mjög mikilvægt að þetta sé skýrt.

Síðan langar mig líka til að vita hvort hæstv. ráðherra hefur rætt það við bresk stjórnvöld, og velti því fyrir sér hér heima líka, hvort bólusetningarstefna Breta sé ekki of frábrugðin þeim kröfum sem við gerum. (Forseti hringir.) Þeir hafa valið það að bólusetja fyrri skammt en þann síðari þá með mjög miklum töfum. Er hálfbólusettur Breti fullbólusettur að mati íslenskra stjórnvalda?