151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:43]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og hlý orð í minn garð. Hv. þingmaður er hér með ágætisspurningar og vísar sérstaklega í það að hversu mikilvæg breska þjóðin er þegar kemur að ferðamennsku á Íslandi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að þeir hlutir gangi vel. Og ég vil kannski nefna, ég veit að hv. þingmaður er ekki þar, að margir halda að samskipti við útlönd fari öll í gegnum utanríkisráðherra en svo er ekki. Ég veit að það hafa verið samtöl milli ferðamálaráðherra hjá okkur og kollega hans í Bretlandi um þessi mál en ég geri ráð fyrir því með þetta ferðabann, og ég held að það séu allir inni á því, að það sé tímabundið. Eins og staðan er núna er ekki mikið að gerast í ferðalögum nema hjá þeim sem eru bólusettir, þeir hugsa sér kannski meira til hreyfings. Við sjáum að Bretar eru komnir með áætlun um það hvernig þeir ætla að létta hömlum. Þeir hafa hins vegar farið þá leið, miðað við mína bestu vitneskju, þetta er ekki á mínu borði, að bólusetja fyrst fyrri skammtinn og niðurstaðan var sú að það dregur gríðarlega mikið, hvort það var 80 eða 90%, úr líkum á því að viðkomandi veikist. Síðan kemur seinni skammturinn seinna. Ef ég hef skilið málið rétt, virðulegur forseti, þetta er ekki beinlínis á mínu borði, þá hafa Bretar nú þegar gert, og gerðu það á sínum dekkstu dögum, tímasetta áætlun um það hvernig þeir ætla að aflétta allra handa takmörkunum og miða við bólusetningaráætlun sína, sem hefur eftir því sem ég best veit gengið vel og þeir eru komnir með hátt hlutfall bólusettra þar í landi.