151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:52]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og góðar spurningar. Aðalatriðið er þetta, og ég hef lýst því margoft yfir á þeim stutta tíma sem liðinn er, frá því að þetta mál kom upp — hv. þingmaður vísar til þessarar reglugerðar — að sendiherra ESB var um leið kallaður upp í utanríkisráðuneyti og mótmælum okkar komið á framfæri, sömuleiðis í Brussel. Ég hef átt samtal við sjö ráðherra þar sem ég hef komið þessum skilaboðum áleiðis. Annars vegar höfum við borið saman bækur okkar, ég og norski utanríkisráðherrann, enda á sama báti, en síðan hef ég talað við sex ráðherra sem eru í Evrópusambandslöndunum, vinaþjóðum okkar, til að koma mótmælum okkar á framfæri, því að við teljum að það sé brot á EES-samningnum að hafa okkur inn á þessum lista. Ég hef sagt að þetta sé ekki boðlegt, notað það orð. Mér finnst það lýsa þessu ágætlega án þess að vera of stóryrtur. Ég held að hv. þingmaður og allir sem fylgst hafa með ummælum mínum viti hvaða þunga ég legg í þetta. Mér þykir það alls ekki boðlegt að þessi leið sé farin og við förum fram á það að þessari reglugerð sé breytt. Þær þjóðir sem eru í Evrópusambandinu sækja sér misjafnlega mikið bóluefni sjálfar eftir öðrum leiðum og við Íslendingar þurfum auðvitað að gæta okkar hagsmuna líka. Það er bara þannig. Þegar kemur að bóluefnum þá eigum við að gera allt hvað við getum til að þjóðin verði bólusett eins hratt eins og mögulegt er. Við höfum svo sannarlega staðið við okkar plikt þegar kemur að þessu samstarfi. En við sjáum hvað er að gerast annars staðar og við hljótum að taka mið af því.