151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir svörin. Ég verð að segja að ég er innilega sammála honum. Mig langar líka að spyrja út í hvort hann hafi verið í samtali og samskiptum t.d. við utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, fengið upplýsingar um þá frábæru stöðu sem þeir hafa haft í Covid-faraldrinum og þann frábæra árangur sem þeir hafa náð. Það er nefnilega merkilegt að þeir náðu þeim árangri með því að vera mjög stífir á sóttkví og fylgja því fast eftir að fólk væri inni í 10 daga, held ég, frekar en í 14 daga. Þeir gátu dansað í veirufríu landi á meðan við vorum algjörlega upp að öxlum í veirunni og erum núna búin að missa tökin á þessu aftur. Svo er líka spurning um Ísrael, vegna þess að þeim hefur líka gengið ótrúlega vel og eins Bretum. Eftir að Bretar komust út úr fangelsinu hjá ESB hefur þeim gengið ágætlega.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé kominn tími til að við snúum okkur frekar að þeim og lærum af þeim, hvernig á að gera, vegna þess að við sjáum að Evrópusambandið er í einhverju fýlukasti, enda kannski ekki að furða vegna þess að við þurfum ekki nema að horfa til Frakklands, sem er innan Evrópusambandsins, hvernig ástandið er þar, til þess að átta okkur á því að það virðist ekki standa steinn yfir steini í bóluefnamálum hjá Evrópusambandinu og hefur ekki gert. Það er óþolandi að við skulum aftur verða fyrir hótunum, fyrst í sambandi við öndunarvél á sínum tíma og nú þetta, í sambandi við bóluefni. Er ekki bara kominn tími til að við sendum skýr skilaboð til Evrópusambandsins um að við líðum ekki svona framkomu af þeirra hálfu?