151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ríkisstjórnin kom með sömu fjármálaáætlun og síðast og þess vegna er ég með sömu ræðu og síðast — en ég ætla ekki að flytja hana. Ég ætla ekki að gera það sama og ríkisstjórnin. Ég hef engan áhuga á því að flytja sömu ræðuna þótt hún hafi verið góð, bara til lýsa því á sem skýrastan hátt hversu skringilegt það er að ríkisstjórnin komi með nákvæmlega sömu fjármálaáætlun aftur. Það er undarlegt af því að í fjármálaáætlun eiga stjórnvöld að leggja fram stefnu sína til þess að það sé fyrirsjáanleiki í því hvað við erum að fara að gera í fjármálum ríkisins, til þess að stjórnvöld geti útskýrt fyrir þinginu, sem fer með fjárstjórnarvaldið, af hverju stefna þeirra felur í sér góða notkun á almannafé. Það er ekkert rosalega erfitt í raun og veru. Það er fín leiðbeining gefin um það í lögum um opinber fjármál. Það er kostnaðargreining, nákvæmlega eins og við gerum í samgönguáætlun og þó nokkrum öðrum áætlunum, það eru engin ný vísindi. Það krefst vissulega vinnu, en það er ekki erfitt upp á það að gera. Það þarf líka ábatagreiningu, hún getur verið frekar flókin en hún getur líka verið gróflega áætluð, áætluð að næstu tugum milljóna til eða frá, það fer eftir stærð verkefna. Hún þarf ekki að vera hárnákvæm. Við vinnum í því eftir því sem við komumst nær þeim verkefnum sem valin eru. Við þurfum bara að vita svona u.þ.b. stærðirnar á þeim ábata því að við vitum alveg að stærðirnar þar á bak við eru mjög ónákvæmar. Það er mögulegur samfélagslegur ábati sem er mjög erfitt að grafa eftir og komast að einhverri nákvæmri tölu. Það er alltaf gagnrýnin sem ég hef fengið þegar ég hef sagt að það vanti ábatagreiningu nákvæmlega eins og segir í lögunum, að það sé bara svo erfitt. Við erum ekki búin að innleiða þetta ferli og það sé svo dýrt o.s.frv. En það eru ekki rök fyrir því að fara ekki eftir lögunum. Það á að meta það fyrir fram hver ábatinn af notkun á almannafé er, sérstaklega hvað varðar stefnu stjórnvalda.

Ég vil taka dæmi um tvö atriði sem fjármálaáætlun og fjárlög eiga að fjalla sérstaklega um. Það er annars vegar stefna stjórnvalda sem er ótrúlega lítill hluti af fjárlögum þegar allt kemur til alls, það er í alvöru rosalega lítill hluti, ég ætla bara að giska á 2%, skjóta út í loftið, það er eitthvað svoleiðis í Danmörku. Hinn hlutinn er lögbundin verkefni. Við komum í þennan sal, förum yfir þau lög sem þingið er að fjalla um. Við sjáum kostnaðargreiningu um hvaða áhrif þau lög hafa á ríkissjóð. En eftir að við erum búin að samþykkja þau lög og við höfum búið til ákveðin réttindi eða verkefni sem stjórnvöld eiga að sinna, sem kosta ákveðið almannafé sem við þurfum að standa skil á varðandi skattheimtu t.d. eða eitthvað slíkt, þá er engin eftirfylgni með því hvað það lögbundna verkefni kostar í raun og veru. Það er mjög undarlegt því að ár eftir ár fáum við fjármálaáætlun og fjárlög. Þar er fullt af stórum upphæðum sem maður pælir í og spyr: Af hverju eru þetta 10 milljarðar? Af hverju eru þetta ekki 9 milljarðar eða 11 milljarðar? Maður biður um sundurliðun á þessu, því að það eru verkefni samkvæmt lögum á bak við þessa tölu, og spyr: Hvað kostar hvert þeirra? Af hverju er þetta verkefni dýrara en hitt? Það fæst ekkert svar og ég veit ekki hvort annað verkefnið sé dýrara en hitt. Því er ekki svarað. Við þurfum að fá þessar upplýsingar til að geta fylgst með því hvort það sé í raun og veru farið rétt með almannafé, svo að við vitum þegar við erum að samþykkja lög um einhver viðbótarverkefni eða viðhaldsverkefni eða slíkt, sem eru metin upp á 100 milljónir eða svo, hvort það standist í raun og veru. Ef það er búið að gera áætlun um það í lagagerðinni, af hverju er ekki hægt að gera það líka í fjárlögunum? Ég spyr mjög einfaldrar spurningar, myndi ég halda. En nei, aftur og aftur á þessu kjörtímabili hefur svarið bara verið: Nei, það er ekki búið að innleiða lögin. Það er samt löngu búið að því. Það er komið svar við því, það er búið að innleiða lögin en það er samt ekki verið að fara eftir þeim. Hvað með ábatagreininguna? Nei, ekkert svoleiðis heldur.

Að lokum er það þriðja og síðasta atriðið, forgangsröðun verkefna. Það er, ef eitthvað er, það mikilvægasta því að þegar við erum að meta hvaða vandamál við erum að glíma við í samfélaginu þá er það bara einfaldlega verkefnalisti. Það er langur verkefnalisti á öllum málefnasviðum, bæði hugmyndir um betrumbætur og líka aðkallandi vandamál. Þetta er listi af verkefnum sem við forgangsröðum og mætum með því fjármagni sem við höfum úr að spila til að reyna að leysa vandann, reyna að gera samfélagið betra. Þegar við höfum ekki aðgang að þessum lista, þegar þjóðin hefur ekki einu sinni aðgang að svona lista, hvernig eigum við að taka upplýstar ákvarðanir um það hvernig á að fara með almannafé þegar allt kemur til alls? Þetta er til á nokkrum málefnasviðum nú þegar, t.d. í samgönguáætlun eins og ég sagði áðan. Það eru smám saman að myndast áætlanir í loftslagsmálum. Það er hins vegar enginn eða lítill ábati greindur þar, hvert þær skila okkur og hver ávinningurinn er af þeim, en það er að bætast við þær áætlanir. Þannig vinnubrögð eigum við að viðhafa og þau vinnubrögð á að innleiða alls staðar, ekki bara á þessum afmörkuðu málefnasviðum heldur alls staðar.

Staðan er núna sú að við fáum hérna sömu stefnu stjórnvalda og við fengum fyrir áramót. Sú stefna stjórnvalda, sem var að mínu mati engin stefna, er stefna sem var frestað fyrir ári síðan. Þá átti ríkisstjórnin að leggja fram fjármálaáætlun með stefnu. Samkvæmt lögum á að leggja fram stefnu fyrir fyrsta 1. apríl ár hvert, en upp kom kórónuveiran og þá var allt í einu svo mikið óvissuástand að stjórnvöld urðu að fresta framlagningu á stefnu sinni, sem er stórfurðulegt því að stjórnvöld eru aðilinn í samfélaginu sem mótar leið út úr óvissu, hagar hlutunum þannig með opinberum fjármálum til að eyða óvissu, gera hlutina skýra. En stefnunni var frestað og hún var lögð fram í haust. Svaraði fjármálaáætlun þá öllum spurningum? Hvað er að fara að gerast í atvinnuleysinu? Hvað er að fara að gerast með innleiðingu á bóluefni og með faraldurinn og hjúkrunarheimilin og allt svoleiðis? Nei, nei, einfaldlega ekki. Þeir vísar og þær hagspár sem lágu fyrir við gerð þeirrar fjármálaáætlunar, við gerð stefnu stjórnvalda á þeim tíma, og vísar varðandi verðbólgu, atvinnuhorfur, hagvöxt, eru allar verri núna en þá, þrátt fyrir stefnu stjórnvalda. Við fengum þjóðhagsspá. Við fengum stefnu til að bregðast við þeirri þjóðhagsspá, stefnu um hvernig við ætluðum að bregðast við atvinnuleysi og gera ástandið betra. En nei, staðan núna er verri. Við erum í rúmlega 12% atvinnuleysi. Við erum með rúmlega 4% verðbólgu og þjóðhagsspáin út þetta ár er verri en sú síðasta í þessum lykilatriðum. Og hvað gera stjórnvöld? Þau leggja fram sömu stefnu sem lagaði þetta ekki síðast. Ég átta mig bara ekki á þessu og þess vegna ætla ég ekki að flytja sömu ræðu og ég byrjaði þessa umræðu á.