151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið um margt áhugaverðar umræður hér í gær og í dag. Ég fór að velta fyrir mér hvað ég vildi segja um það og ætla að hafa þetta frekar stutt en ég fór að líta yfir farinn veg eins og maður gerir gjarnan þegar fer að síga á seinni hlutann. Nú eru komin þrjú og hálft ár og þetta er síðasta ríkisfjármálaáætlun sem þessi ríkisstjórn leggur fram.

WOW air, loðnubrestur, óveður, skriðuföll, snjóflóð, kórónuveirufaraldur, eldgos. Allt er þetta dálítið stórt og hefur tekið mikið pláss í lífi okkar margra og sumt í lífi okkar allra og skipt gríðarlega miklu máli fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, svo ég tali nú ekki um það sem hefur tekið á þjóðina, þessi áföll sem hér eru talin upp. Það er hægt að tala mikið um þetta fyrir utan þau daglegu verkefni sem hver ríkisstjórn þarf að fást við auk þeirra pólitísku stefnumiða sem lagt er af stað með í upphafi. En þau hafa kannski verið heldur mörg, þessi óvæntu og stóru áföll.

Ríkissjóður stóð vel við upphaf faraldursins og við vorum því í færum til að takast á við það áfall sem veiran hefur valdið okkur. Þrátt fyrir mikinn skuldahalla núna þá erum við að fjárfesta í fólki og fyrirtækjum. Afkomu- og skuldahorfur hins opinbera hafa sannarlega batnað í takt við bættar efnahagshorfur. Það hlýtur að teljast ánægjuefni að síðasta ár kom betur út en spár og áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er vegna þess að þau kröftugu viðbrögð og áætlanir sem ríkisstjórnin hefur byggt á hafa sannarlega skilað árangri.

Atvinnuleysið er stærsta verkefnið okkar fram undan og það er sannarlega gríðarlega mikið áhyggjuefni. Þess vegna er mikilvægt að styðja vel við fólk og fyrirtæki þannig að hægt sé að fjölga störfum. Sú kröftuga innspýting sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á ýmsa vegu verður upphafið að viðspyrnu í hagkerfinu. Við höldum áfram að fjárfesta í innviðum landsins og skapa störf. Það eru sjúkrahús, vegir, brýr, hjúkrunarheimili, jarðgöng, Herjólfur, Hús íslenskunnar, svo eitthvað sé nefnt, fyrir utan þá fjárfestingu sem sveitarfélög fara í í gatnagerð, grunnskólum, íþróttamannvirkjum og holræsum svo eitthvað sé tínt til. Allt spilar þetta saman.

Á kjörtímabilinu hafa stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum verið aukin. Framlög hafa hækkað verulega til framhaldsskóla og háskóla og þessi áætlun styður við allt þetta. En eins og áður er þungamiðjan í útgjöldum ríkisins í heilbrigðismálum fyrir utan allt það sem hefur þurft að grípa til vegna faraldursins. Um þriðja hver króna sem fer úr ríkissjóði fer í heilbrigðismál. Það eru ekki ný sannindi að þjóðin er að eldast og ekki ósennilegt að fólki með lífsstílstengda sjúkdóma fjölgi á komandi árum og áratugum. Það er ekki hægt að vinna baráttuna um heilbrigt samfélag eingöngu með útgjöldum til heilbrigðismála en þar er sannarlega hægt að tapa henni. Því leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ríka áherslu á heilbrigðismál og hafa árleg útgjöld til heilbrigðismála verið aukin gríðarlega á kjörtímabilinu. Forgangsröðunin er skýr, að venjulegt fólk fái aðgang að betri heilbrigðisþjónustu, betra velferðarkerfi, betra menntakerfi og betri samgöngum. Aldrei hafa jafn miklir fjármunir farið í nýsköpun, grunnrannsóknir og þekkingargreinar sem hafa vaxið um 70% á kjörtímabilinu.

Eins og sjá má í fjármálaáætlun erum við að bregðast við röskun loftslags af mannavöldum og standa við gerða samninga um samdrátt í losun fyrir árið 2030 og búa samfélagið undir að verða kolefnishlutlaust fyrir árið 2040. Aldrei áður hafa jafn miklir fjármunir runnið til umhverfis- og loftslagsmála og í þessari fjármálaáætlun erum við að bæta 1 milljarði á ári við það sem fyrir er og fara 13 milljarðar á næsta ári í málaflokkinn, m.a. í aðgerðir í landbúnaði, í náttúrumiðaðar lausnir, orkuskipti o.fl., enda er mikilvægt að huga að því að ná fram fleiri markmiðum samhliða því að sækja fram í loftslagsmálum. Sú áskorun sem felst í loftslagsbreytingum er verkefnið sem við þurfum öll að taka þátt í, fólk og fyrirtæki, til að ná árangri. Til að samfélaginu gangi vel til lengri tíma þarf sígandi lukku. Það er nefnilega snúin jafnvægislist að haga hagstjórninni með þeim hætti að velferð landsmanna til skamms og langs tíma sé hámörkuð. Það er hlutverk ábyrgra stjórnvalda að hámarka velferð landsmanna samtímis til skamms og langs tíma. Ég tel að með þessari fjármálaáætlun sýnum við að við erum meðvituð um þetta.