151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Við höfum átt umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og hafa verið fluttar margs konar ræður. Það sem mér hefur þótt einkenna þessa umræðu nokkuð af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna er að það er eins og menn hafi að einhverju leyti gefist upp við að hugsa til framtíðar. Ráðherrarnir hafa helst dvalið við fortíðina og farið yfir þau afrek sem þeir telja sér til tekna en minna farið í framtíðarsýnina. Eins og sjá má af þeim bókum sem ég tók með mér upp er fyrri fjármálaáætlun sem var samþykkt fyrir nokkrum mánuðum talsvert þykkari en sú sem nú er lögð fram enda eru í henni ekki gerðar neinar breytingar á fyrri fjármálaáætlun. Menn virðast ekki hafa séð neina ástæðu til neins konar endurmats eða endurnýjunar á þeim markmiðum sem þar voru sett.

Fjármálaáætlun, jafnvel þó að hún hafi verið sett fram á síðasta ári, sett fram rétt fyrir kosningar, getur ekki gert neitt annað en að lýsa framtíðarsýn þeirrar ríkisstjórnar sem situr. Það verður að gera ráð fyrir því að þetta sé yfirlýsing þessara flokka um það hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér. Talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að þessi ríkisstjórn sé ein sú albesta sem hefur verið við völd í landinu og það kemur skýrt fram að flokkarnir og ráðherrarnir eiga sér þann draum að halda áfram að loknum kosningum. Með öðrum orðum, þessi fjármálaáætlun hlýtur að vera veganesti þessara flokka inn í kosningarnar. Það væri undarlegt í meira lagi ef þeir næðu saman og fengju til þess fylgi að þeir legðu upp með einhverja allt aðra framtíðarsýn en þeir hafa sett fram í sameiningu. Og það verður að segjast eins og er að þessi framtíðarsýn ber keim af því að menn hafa að einhverju marki gefist upp á viðfangsefninu. Flokkarnir segja: Ja, það er svo stutt í kosningar að það tekur því eiginlega ekki að vera að breyta einu né neinu, það sé verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Það kann vel að vera að það verði verkefni nýrrar ríkisstjórnar en þessi ríkisstjórn, komist hún aftur til valda, þarf væntanlega ekki mikið að gera því að þau eru búin að sameinast um það hvernig þau sjá framtíðina fyrir sér.

Það sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn er margt. Það sem er mér einna minnisstæðast hingað til í fari hennar er það að hún er sérlega flink í stórum yfirlýsingum. Hún er sérlega flink í því að halda flotta blaðamannafundi, boða miklar aðgerðir en síðan þegar á reynir og málin eru skoðuð nánar kemur í ljós að lítið hefur staðið eftir. Það er margt sem hefur verið sagt sem ekki hefur verið staðið við.

Ekki ætla ég að gera lítið úr þeim vanda sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft í för með sér. Stjórnarandstaðan, í það minnsta við í Viðreisn, tók strax þá stefnu að styðja við góðar aðgerðir. En það var nú ekki þannig að ríkisstjórnin gæti látið svo lítið að hafa samráð, þrátt fyrir að hafa í stjórnarsáttmála sínum lagt sérstaka áherslu á að það væri svo mikilvægt að efla Alþingi og samskiptin við Alþingi. Það varð ekki meira úr því en að haldnir voru blaðamannafundir, mikið kapp lagt á það, en ekkert samráð haft við stjórnarandstöðu um eitt né neitt.

Það blasir líka við að ríkisstjórninni tókst ekki að standa t.d. við miklar yfirlýsingar um fjárfestingar í atvinnulífinu. Hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi hér í umræðunni að það hefði ekki tekist. Fjallað er um það í sérstakri grein í þessari fjármálaáætlun að það hafi ekki tekist. Það verður að segja alveg eins og er að það er með nokkrum ólíkindum, í ljósi þess að stjórnarflokkarnir gengu til þessa ríkisstjórnarsamstarfs í kjölfar mikilla yfirlýsinga um hvað ætti að gera mikið í innviðafjárfestingum í landinu. Staðreyndin er hins vegar sú að það hefur frekar dregist saman en hitt. Nú lítur helst út fyrir það að allar þær framkvæmdir sem lofað var muni verða í hámarki eftir eitt, tvö eða þrjú ár. Ef það er rétt sem ríkisstjórnin hefur haldið fram, að hér verði svo snörp viðspyrna og umsnúningur í efnahagslífinu að annað eins muni ekki sjást á byggðu bóli, hér sé allt undir það búið, þá verð ég að segja að þá munu allar þessar miklu fjárfestingar og framkvæmdir koma á versta tíma fyrir samfélagið, akkúrat þegar atvinnulífið er að taka við sér, þegar atvinnuvegafjárfestingarnar fara á fullan skrið. Það mun leiða til öfugrar niðurstöðu. Það mun leiða til þenslu og verðbólgu. Það er ekki það sem við þurfum á að halda.

Það er líka óhjákvæmilegt að nefna að hér er atvinnuleysi í hæstu hæðum. Allir eru sammála um að atvinnuleysi er eitt stærsta böl sem við þurfum að takast á við. Á sama tíma er verðbólga hér sú hæsta í Evrópu. Atvinnuleysið jókst mest á Íslandi af öllum OECD-ríkjunum. Á sama tíma erum við með gjaldmiðil sem er undirstaða samfélagsins og sveiflast til eins og strá í vindi. Ég hef áður gert það að umtalsefni að hún leikur oft heimilin grátt. Menn vita ekki á milli mánaða hvað hlutir kosta. Ég hef nefnt hér dæmi af bílakaupum og því sem getur munað á milli ára á 6 millj. kr. fjölskyldubíl, það getur hæglega munað 1–1,5 milljónum eftir því hvenær bíllinn er keyptur. Og svarið sem menn gefa við þessu er að gjaldmiðillinn sé undirstaða þess að hér geti ríkt velferð og farsæld til framtíðar. Ríkisstjórnin sjálf hefur þó ekki meiri trú á gjaldmiðlinum en svo að það er búið að leggja fram frumvarp sem felur í sér að íslenska krónan er (Forseti hringir.) varin í bak og fyrir með svo ríkulegum heimildum til inngripa, afskipta og hafta (Forseti hringir.) að annað eins þekkist ekki í nokkru siðuðu landi.