151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Umræðan um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 hefur verið gagnleg og athyglisverð á margan hátt. Ég sagði hér í gær, svo ég rifji upp eigin orð úr þessari umræðu, að þessi fjármálaáætlun, eins og hún er nú fram sett, væri skynsamleg og ábyrg með tilvísun í gildandi fjármálaáætlun og útgjaldaáætlun málefnasviða. Lögð er áhersla á heildarmyndina og þær áskoranir sem við stöndum öll frammi fyrir á komandi misserum og árum og undan þeim áskorunum verður ekki vikist. Mér fannst það einmitt koma vel fram í umræðunni að við erum meðvituð um þetta og enn frekar fannst mér það koma fram í orðaskiptum hv. þingmanna við hæstv. ráðherra. Ég held að formið sem við höfum haft á þessari umræðu hafi sannað sig að því leyti. Það er auðvitað mikilvægt að við eigum hér gagnrýna umræðu um þennan mikilvæga þátt í því stefnumarkandi hringrásarferli sem boðað er með lögum um opinber fjármál. Mér finnst það jafnframt birtast í áætluninni og í umræðum um hana hversu mikilvægt það er, nú þegar við höfum grunngildin ein til viðmiðunar, ef svo má segja, vegna þess að við höfum vikið frá fjármálareglum tímabundið, að dregið er fram hver staðan er, eins og gert er í greinargerð áætlunarinnar. Tekið er mið af hagspá, efnahagsþróuninni, efnahagshorfunum og sviðsmyndin er dregin upp eins skýrt og mögulegt er. Við höfum útgjaldaþróunina, tekjuþróunina og skuldaþróunina til næstu fimm ára þannig að þær áskoranir í ríkisfjármálum sem við stöndum frammi fyrir séu okkur ljósar. Þetta er gagnsæisþáttur sem kallað er eftir.

Áætlunin nú er uppfærð miðað við nýjar þjóðhagsforsendur en sökum þess hve stutt er liðið frá því að Alþingi samþykkti síðustu áætlun er það eðlileg og rökrétt ákvörðun að mínu viti að endurskoða ekki frá grunni áherslumál einstakra málefnasviða. Stefnumörkunin sem lagt er upp með í áætlun áranna 2021–2025 stendur þannig áfram fyrir sínu.

Varðandi útgjaldabreytingarnar koma þar fram breytingar vegna tveggja tilefna. Annars vegar er stærsta framkvæmd ríkisins, bygging nýs Landspítala, endurmetin. Þarfagreining og innleiðing verkefnisins veldur tilfærslu þannig að nú er gert ráð fyrir heldur lægri útgjöldum vegna framkvæmdarinnar árin 2022 og 2023, en mun hærri 2024 eða 2025, eða sem nemur 10,3 milljörðum kr. Hins vegar er ákveðið að verja árlega 1 milljarði kr. til viðbótar til loftslagsmála með það að markmiði að tryggja að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Stærsti hlutinn fer til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Þar að auki liggur fyrir frumvarp um skattalegar ívilnanir vegna grænna fjárfestinga og þar er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um 1,3 milljarða kr. á ári, sem vinnur að sama markmiði og útgjaldahækkunin.

Það er vert að víkja að gjaldaforsendum þar sem miðað er við að draga verulega úr almennri árlegri aðhaldskröfu. Ég átti orðastað um það í umræðunni við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Almenna aðhaldskrafa nemur 2% á ári vegna flestra málefnasviða fyrir utan heilbrigðis- og skólamál þar sem hún er 0,5% af veltu. Gert er ráð fyrir að lækka hana niður í 1% fyrir árin 2023–2026 og sleppa henni alveg á málefnasviðum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og skóla.

Í samræmi við breytingar á þjóðhagsspá er gert ráð fyrir lítils háttar hliðrun tekna miðað við fyrri fjármálaáætlun og tekjur reyndust um 80 milljörðum hærri á árinu 2020 en áætlað var. Síðan er gert ráð fyrir samsvarandi lækkun á þessu ári miðað við fyrri fjármálaáætlun. Þá er ekki gert ráð fyrir neinum frekari kerfisbreytingum sem kláruðust hér á tekjuskattskerfinu, til að mynda á tekjuhlið fjárlaga, frá því sem áður var áætlað. Þannig að við getum verið að horfa fram á hliðrun að þessu leyti og 2021 verði þyngra en 2020.

Eins og margoft hefur komið fram höfum við á áætluninni látið svokallaða sjálfvirka sveiflujafnara opinberra fjármála, bótakerfin okkar, tilfærslukerfin og svo tekjuhliðina, virka að fullu til að milda höggið vegna heimsfaraldursins. Áhrif þeirra nema alls 205 milljörðum kr. á þessum tveimur árum, 2020 og 2021.

Ný þjóðhagsspá sem Hagstofan hefur nýverið gefið út er grundvöllur fyrir efnahagsforsendum áætlunarinnar. Áætlun áranna 2021–2025 byggði á spá sem var gefin út í októberbyrjun og helstu breytingarnar eru þær að útkomuhagstærðir ársins 2020 eru heldur hagstæðari en spáð var. Framleiðslutapið er minna. Þannig dróst hagkerfið saman um 6,6% sem er 1 prósentustigi skárra en spáð var í október. Afkoma ríkissjóðs reyndist neikvæð um 200 milljarða kr. í fyrra en búið var að spá allt að 270 milljarða kr. halla þannig að hún reyndist 70 milljörðum skárri en áætlað var. Það er þetta sem vísað er til; staðan er betri en spár gerðu ráð fyrir. Að ákveðnu marki er um hliðrun að ræða og ýmis Covid-úrræði sem veitt var heimild fyrir í fyrra nýttust ekki að fullu og færast yfir til þessa árs. Þá er nýja hagspáin ekki jafn hagstæð fyrir yfirstandandi ár varðandi hagvöxt og eins er ekki gert ráð fyrir að atvinnuleysi lækki jafn hratt eins og áður var talið. Nú er talið að það verði 7,8% á árinu en ekki 6,8% eins og þá. Það er því nauðsynlegt að stefna áfram að sjálfbærni í ríkisfjármálum og missa ekki sjónar á því markmiði að ná jafnvægi í lok áætlunartímans.

Virðulegi forseti. Við ætlum okkur, eins og heimurinn allur, inn í grænna, stafrænt og skapandi hagkerfi með áherslu á jöfnuð. Það er rauði þráðurinn í fyrirætlunum þeim sem boðaðar eru í alþjóðaskýrslum og -samantektum. Hér í greinargerð með áætluninni er í ágætri rammagrein vísað til að mynda í OECD um þetta efni og hvað þurfi til að auka hagvaxtargetuna til að framleiða meiri verðmæti og skapa störf. Þá er hér mjög athyglisverður kafli þar sem lesa má um umbætur í ríkisrekstri og eflingu stafrænnar þjónustu.

Á þessu kjörtímabili hefur verið lögð mikil og þung áhersla á nýsköpun, rannsóknir og þróun, lagður grunnur að framtíðinni á þessu sviði með nýsköpunarstefnu og opinberri klasastefnu, aukinn stuðningur við hugvitsstarf og frumkvöðlastarfsemi, Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur sem og samkeppnissjóður og stofnað til nýrra sjóða og verið er að byggja undir og efla allt vistkerfi nýsköpunar. Áætlunin öll eins og hún er lögð fram er mjög vönduð að þessu leyti, vil ég segja, og í raun sviðsmynd þessarar vegferðar með öllum þeim áskorunum sem henni fylgja.

Við eigum mikið undir því að vaxa út úr þessari kreppu, að framleiðslan vaxi hraðar en útgjöldin og við getum náð jafnvægi að nýju í ríkisfjármálum og greitt niður skuldir. Vandasamasta áskorunin er að skapa atvinnu, ná niður atvinnuleysi sem er að stórum hluta tímabundið og tengt ferðaþjónustu og við munum sjá atvinnuleysistölurnar fara hratt niður í viðspyrnunni en við eigum ekki að sætta okkur við viðvarandi atvinnuleysi í 4–5% eins og spárnar segja til um. Þar verðum við að gera betur en spár segja til um. Hvort er mikilvægara, virðulegi forseti, spár eða raunveruleiki? Við höfum gert betur en spár sögðu til um þegar kemur að því að verja framleiðslugetuna. Þess vegna mælist hagvöxtur lægri vegna þess að við náðum að verja þrótt og styrk hagkerfisins. Magnaukningin reiknast á hærri framleiðslugrunn í nefnara hlutfallsins, svo einfalt og jákvætt er það.

Hér hefur komið fram í umræðunni gagnrýni á að verið sé að horfa til skuldaþróunar sem auðvitað er í samhengi við það hvernig tekjur og gjöld þróast á næstu misserum. Af hverju er verið að staðsetja það í áætlun ríkisfjármála að ná jafnvægi tekna og gjalda? Getum við ekki bara fleytt þessu lengra inn í framtíðina? En það að ná jákvæðum frumjöfnuði, stöðu og styrk til að vinna niður skuldir og vaxtabyrði er afar mikilvægt. Það er ekki hægt að skuldsetja sig endalaust og skuldsetja sig fyrir skuldunum. Eins og áætlunin er lögð upp á að nást afgangur á frumjöfnuði um 15 milljarða, gangi spár eftir eða grunnsviðsmyndin, og þá verða þau umskipti að hægt verður að vinna á vöxtum og stöðva skuldasöfnun árið 2026 og þá getum við aftur virkjað fjármálareglurnar.

Virðulegi forseti. Ég kemst ekki lengra í bili. Ég þakka þessa umræðu. Núna tekur við vinna í hv. fjárlaganefnd við að fjalla um umsagnir og betrumbæta þessa áætlun sem við eru nú komin með inn í þingið.