151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum komin að endalokum umræðu um fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar, áætlun sem á að gilda frá 2022–2026. Ég verð að segja alveg eins og er að guð hjálpi okkur ef þessi ríkisstjórn verður við völd áfram eftir næstu kosningar því samkvæmt þessari fjármálaáætlun eru skýr skilaboð frá ríkisstjórninni til öryrkja, eldri borgara, atvinnulausra, láglaunafólks og þeirra sem verst hafa það í þessum hópum; félagsbótaþega. Það er stór hópur sem hefur dottið út af atvinnuleysisbótum og er á félagsbótum og er þar í lottói eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir einstaklingar detta inn á félagsbætur, hvort þeir hafi yfirleitt efni á húsnæði, hvað þá mat, sem er eiginlega ólíklegt þegar komið er í þær lágu upphæðir sem þar er boðið upp á. Það sýnir dugleysi þessarar ríkisstjórnar og þeirra ríkisstjórna sem á undan hafa komið að engin af þeim hefur sett sér það markmið að finna út rétta framfærslu, finna út sanngjarna og rétta framfærslu fyrir þá sem þurfa á því að halda að lifa í þessu kerfi þannig að þeir geti lifað með reisn og þurfi ekki að standa í biðröðum eftir mat. Og sumir geta hreinlega ekki staðið í biðröðum eftir mat og hafa þar af leiðandi ekki aðgang að mat sem er skelfileg staða. Við sjáum og heyrum fregnir af því hvernig ásókn í mataraðstoð hefur stóraukist og einnig hefur stóraukist aðsókn í heitan mat hjá þeim sem bjóða upp á það eins og Samhjálp. Þar koma um 200 manns í mat sem er stóraukning.

En hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraða, öryrkja og atvinnulausa? Hver er framtíðarsýnin í málefnum almannatrygginga, þeirra hópa sem hafa síðustu áratugi orðið fyrir gífurlegri kjaraskerðingu? Það er búið að leiðrétta hjá flestöllum hópum nema þessum hópi, þar vantar á fjórða tug prósenta upp á. Ef rétt væri gefið, væri búið að leiðrétta þetta, þá væri þessi hópur með ekki undir 300.000 kr. í dag. Í því samhengi má nefna að ríkisstjórninni tókst á ótrúlega hátt að lækka persónuafsláttinn sem hefði nú átt að stórhækka ef rétt væri gefið, hann ætti að vera mun hærri ef hann hefði fylgt launavísitölu eða hækkað eðlilega miðað við áratugina sem hafa liðið síðan staðgreiðslan var tekin upp. Þá værum við með vel yfir 300.000 kr. í dag, skatta- og skerðingarlaust til útborgunar. En því miður er staðreyndin sú að stór hópur fólks þarf að lifa á rétt rúmum 200.000 kr. og sá hópur mun ekki fá neinar risahækkanir fram til 2026 ef sú ríkisstjórn sem leggur fram þessa fjármálaáætlun stendur við það sem hún ætlar að gera. Það kemur skýrt fram í þessari stefnu þeirra að það er í mesta lagi verðbótaþátturinn sem er í boði. Það kemur skýrt fram, að það eru rétt rúmlega 2% hækkanir sem eru áætlaðar alveg fram til 2026. Á sama tíma er áætlað að launahækkanir verði nærri helmingi hærri. En það stendur ekki og hefur aldrei staðið til boða fyrir þann hóp sem þarf að treysta á almannatryggingakerfið.

Því miður er hér ekki boðið upp á neitt mikið betra í öðrum kerfum. Við sjáum hvað á að ske í heilbrigðismálum. Því miður er stærstur hluti þeirrar aukningar sem þar er sett inn eingöngu eyrnamerktur uppbyggingu nýs háskólasjúkrahúss. Það er mjög gott mál en því miður þarf mun meiri peninga þar inn, sérstaklega þegar þessu Covid-tímabili lýkur og það þarf að taka til hendinni í biðlistum sem hafa stóraukist og einnig endurhæfingu þeirra sem hafa farið virkilega illa út úr Covid-tímabilinu.

Það eru líka önnur teikn á lofti um hvað fram undan er vegna þess að ný hagspá er bjartsýnni en sú sem fyrri áætlun byggði á og þar af leiðandi verður kannski minni skuldasöfnun og minni þörf á afkomubætandi ráðstöfunum og niðurskurði en það þarf niðurskurð. Það er engin spurning að ef þeir flokkar sem skipa þessa ríkisstjórn fá að vera áfram næsta kjörtímabil þá verður gripið til niðurskurðar. Og á hverjum mun sá niðurskurður bitna? Jú, það hefur sýnt sig hjá þessari ríkisstjórn í gegnum þau fjögur ár sem hún hefur starfað að breiðu bökin eru almannatryggingakerfið, atvinnulausir og launalægsta fólkið hér á landi.

Ráðherrar hafa verið að hæla sér af, eins og félags- og barnamálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, gífurlegri aukningu í almannatryggingakerfinu, 70 milljarðar sagði hæstv. félags- og barnamálaráðherra stoltur. En hann sagði okkur ekki á móti hvað var vegna fjölgunar eða bara venjulegrar hækkunar og hversu mikið ríkið fær til baka með skerðingum eða keðjuverkandi skerðingum. Við vitum það og er margbúið að sýna fram á að það sem er sett inn í þetta kerfi, þetta ómannúðlega bútasaumaða skrímsli sem almannatryggingakerfið er orðið, skilar sér ekki í vasa þeirra sem þurfa á því að halda. Það rennur í gegnum vasa þeirra og aftur í ríkissjóð eða til sveitarfélaga.

Þetta segir okkur að þörfin er mikil og það er mikil vinna fram undan til að sjá til þess að þessir hópar fái það réttlæti sem þeir hafa beðið um. Við vitum að í þessum Covid-faraldri er alltaf einn hópur sem hefur setið algerlega eftir og hefur ekki fengið eitt einasta sérstaka úrræði og það eru þeir sem byggðu upp þetta land, eldri borgararnir. Það er kannski sárast, það er bæði gott en líka sárt, að stór hópur eldri borgara hefur það gott og þarf ekkert sérstaklega á hjálp að halda en það er ótrúlega stór hópur sem þarf virkilega á hjálp að halda og þarf nauðsynlega á því að halda að eitthvað sé gert fyrir þá en þeir fá ekkert frá þessari ríkisstjórn. Þeir báðu hógværir um að fá 15.000 kr. hækkun samkvæmt síðustu lífskjarasamningum en á það var ekkert hlustað. Þessi ríkisstjórn hlustaði ekki á þennan hóp. Og það er alveg á hreinu, samkvæmt þessari fjármálaáætlun, að þau munu ekki á nokkurn hátt hlusta á þennan hóp næstu fjögur árin ef þau komast til valda og halda þeim völdum sem þau eru með. Því miður, þá verður þessi hópur breiðu bökin, þar verður niðurskurðurinn.