151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að þeir sem hafa horn í síðu Evrópusambandsins og mögulegrar aðildar Íslands að því og EES-samningsins eru óvenjuglaðir í sinni þessa dagana. Þeir taka varla til máls án þess að nefna fullveldi Íslands, að beita fullveldisrétti Íslands og að nú um stundir sanni sig að best sé að vera einn og óstuddur í veröldinni, þeysa um á fáki fráum í fullum herklæðum, með lensu fullveldisins að vopni og gera strandhögg í gjöfulum lendum bóluefnagnægtar, sem hið vonda Evrópusamband hafi ginnt okkur til að lofa að snerta ekki. Allt er þetta með hinum mestu ólíkindum. Í öðru orðinu er talað um klúður Evrópusambandsins og að innan þess geti einstök ríki hvorki hreyft legg né lið, Evrópusambandið sé lokað tollabandalag sem hugsi bara um eigin hagsmuni en láti sér í léttu rúmi liggja hvað gerist í umheiminum. Það sannist nú rækilega í Covid-faraldrinum. Í hinu orðinu er það gagnrýnt fyrir að hafa ekki hugsað nægilega vel um eigin hag. Þess vegna neyðist sum aðildarríki þess til að grípa til fullveldisréttar síns og fara eigin leiðir. Bíðið þið nú við, fullveldisréttar? Hafa þá ESB-ríkin fullveldisrétt eftir allt saman? Það má gagnrýna ESB fyrir margt. Það verður þó ekki gagnrýnt fyrir að hugsa fyrst um eigin hag þegar kemur að bóluefnum. Af því njótum við Íslendingar góðs. (Forseti hringir.) ESB hefur flutt út 77 milljónir bóluefnaskammta, Bandaríkin ekki einn skammt, Bretar ekki einn skammt.