151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fermingarbörn gráta því þau missa af fermingarveislunni. Börn sem eru nú að missa af afmæli sínu í annað sinn gráta einnig sárt. Börnin gráta vegna slóðaskapar ríkisstjórnarinnar í Covid-19 veiruvörnum. Breska afbrigði hennar var boðið velkomið inn og það hringdi engum viðvörunarbjöllum og engin rauð ljós kviknuðu þegar erlendir túristar voru að koma til landsins í þriggja til fjögurra daga ferðir og áttu að vera í fimm daga í sóttkví. Verkamenn komnir til landsins brjóta sóttkví og fara beint í vinnu. Enginn að fylgjast með því. Veisluþjónustan sem var komin á skrið og sá fram á bjartari tíma varð að skella í lás og svo allir hinir sem nú sjá fram á gríðarlegt tekjutap vegna klúðurs á landamærum sem vel hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Enn og aftur verða þau sem nauðsynlega þurfa á líkamsrækt, sundi og heitum pottum að halda sér til endurhæfingar að missa þá nauðsynlega þjónustu. Það er vegna þess að ríkisstjórnin beitti ekki þeim lögum og reglum sem hún hefur til þess að gera allt sem í hennar valdi til að stöðva það að hið bráðsmitandi breska veiruafbrigði léki lausum hala í samfélagi okkar.

Nú er enn og aftur veikt fólk með undirliggjandi sjúkdóma lokað inni, jafnvel peninga- og matarlaust, og hefur ekki efni á að panta mat eða aðrar nauðsynjar á netinu eða fá sent heim. Á sama tíma er ríkisstjórnin að borga fyrir erlenda túrista í sóttkví, sem er fáránlegt, þegar hún segist hafa ekki hafa fjármagn til að hjálpa þeim fáu, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir að séu í ömurlegum aðstæðum. Hvar á að finna fjármagn til að hjálpa þeim verst settu sem eru í ömurlegum aðstæðum í boði hans og ríkisstjórnarinnar, spyr hann, en á sama tíma vantar ekki fjármagn í allt annað.

Fólkið fyrst, svo allt hitt, segir Flokkur fólksins, en því miður er það hjá þessari ríkisstjórn: Allt hitt fyrst og smámolar eftir fyrir fólkið og þeir verst settu fá ekki neitt.