151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Ég verð að vera ósammála henni vegna þess að Nýja-Sjáland náði þessu, það náði tökum á þessu. Nýja-Sjáland var í svipuðum málum og við núna með veirufrítt land, þeir náðu þessu og eru búnir að ná miklu betri árangri en við þannig að þetta er hægt. Börn eru núna að grenja yfir því að þau fá ekki að fara í fermingarveislu og annað skiptið í röð geta börn ekki haldið afmæli.

En það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um, það er brasilíska skipið. Er það rétt að það hafi ekki tilkynnt veikindin þegar það kom inn í landhelgina? Og annað: Hvaða trygging er fyrir því að brasilíska veiran sleppi ekki út? Ef það verða alvarleg veikindi um borð og það þarf að flytja einhvern á sjúkrahús, hvernig verður það framkvæmt? Er það öruggt og er búið að tryggja að það sé engin hætta á því að þetta brasilíska veiruafbrigði sleppi úr skipinu í land? Hvaða ráðstafanir er verið að gera til að tryggja það og hvað ef það þarf að flytja einhvern alvarlega veikan á sjúkrahús?