151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:09]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Þetta var fínt með 70 ára og eldri, útskýringuna á því. Hvað með yngra fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem þó er í forgangi, verður það sett undir AstraZeneca bólusetningu eður ei? Hefur komið til tals að gera líkt og Bretar hafa gert, að hálfbólusetja fleiri þannig að einhverjir séu búnir að mynda ákveðna vörn? AstraZeneca gefur okkur 76% virkni.

Að lokum langar mig aðeins að spyrja út í frétt sem birtist núna um að það sé smit utan sóttkvíar sem tengist gosstöðvunum. Mig langar sérstaklega að koma inn á þetta vegna þess að þar er sameiginlegur snertiflötur sem er kaðall. Þar er ekki stýrð umferð, þar er ekki sótthreinsað, þar er fólk ekki í hólfum, það eru ekki fjöldatakmarkanir, þar er ekki grímuskylda, þar er ekki 2 metra regla eða því er alla vega ekki fylgt eftir. En (Forseti hringir.) þessu mega skíðasvæði landsins sæta og þessi sömu skíðasvæði fá ekki að hafa opið þrátt fyrir að vera með alla umgjörð í lagi.