151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. „Þetta þurfti ekki að fara svona ef landamærin hefðu ekki lekið“, sést víða um internetið, víða á samfélagsmiðlum og jafnvel í umræðu í fjölmiðlum. Ég held áfram að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún telji lagaheimildir vera nógu skýrar til þess að skylda alla ferðamenn og heimafólk til dvalar í sóttvarnahúsi ef þau koma frá rauðum löndum. Er húsnæði til fyrir u.þ.b. 1.300 manns á viku? Sóttvarnalæknir hefur talað um að mögulega þurfi lengri sóttkví en eina viku. Í Nýja-Sjálandi erum við að tala um 14 daga. Svo vil ég spyrja aðeins út í þessi rauðu lönd af því að sóttvarnalæknir talar um að ef eitt svæði innan lands er rautt sé landið rautt. Nú er þetta litakóðunarkerfi evrópskt. Hvernig er með Bandaríkin, hvernig er með Kanada, Bretland, ef eitt svæði er rautt þar? Hvernig er þetta? Hvernig verður þetta? Hvernig sér heilbrigðisráðherra fyrir sér þetta system, litakóðunarkerfið og veru fólks í sóttvarnahúsi?