151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[13:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessu máli, sem er að sjálfsögðu mikilvægt, sérstaklega er varðar afhendingaröryggi á raforku. Ég vil beina aðeins sjónum að bls. 10 í kafla 3.5 í frumvarpinu þar sem rætt er um áherslu á gæði raforku og afhendingaröryggi. Þar er sérstaklega nefnt að dregið verði úr hvötum til að fresta viðhaldi. Þar segir: „Bent hefur verið á að núverandi kerfi feli í sér hvata til þess að fresta nauðsynlegu viðhaldi“ og að sú frestun á viðhaldskostnaði feli í sér skammtímaágóða fyrir eigendur. Það er að sjálfsögðu stórt og mikið mál og við þekkjum að þegar farið var að einkavæða í Bretlandi, m.a. breska járnbrautakerfið, fóru menn að fresta og draga úr viðhaldi til að ná inn skammtímagróða sem hafði síðan alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Rætt er um viðmið á Norðurlöndunum og að þau hafi tekið á þessum málum. Hér á landi eigum við t.d. stórt dreififyrirtæki sem er að stórum hluta, þó ekki meiri hluta, í eigu einkaaðila. Eru dæmi þess að viðhaldi sé ábótavant, þekkir hæstv. ráðherra það? Hvernig er eftirliti háttað? Hver sér um að fullnægjandi eftirlit sé með þeim mannvirkjum sem flytja orkuna?