151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[13:23]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hægt er að fullyrða að einhverju viðhaldi hafi verið frestað og það kemur fram í skýrslu Deloitte. En bara til að rétta af umræðuna má segja að fyrirtækið sem hv. þingmaður vísar sérstaklega til, sem er að hluta til í eigu einkaaðila, sé nánast ekki hér undir, heldur eru dæmi um að viðhaldi hafi verið frestað í einmitt þeim fyrirtækjum sem eru í opinberri eigu. Það er ákveðinn freistnivandi, eins og hv. þingmaður kemur inn á, það er rétt og það er það sem við erum að reyna að bregðast við.

Rekstrarkostnaður í tekjumörkum er fastur og frestun á viðhaldskostnaði felur þá í sér skammtímaágóða fyrir dreifiveitur. En bara þannig að það sé sagt þá er þessi tillaga ekki sprottin upp vegna þess fyrirtækis sem er að hluta til í eigu einkaaðila heldur í raun frekar vegna annarra sem eru í opinberri eigu, með misjöfnum hætti þó.