151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[13:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Í tengslum við þetta frumvarp, sem lýtur að breytingum á raforkulögum og m.a. raforkuöryggi, langar mig að koma aðeins inn á mál sem komið hefur upp vegna eldsumbrotanna í Geldingadölum og við þekkjum öll. Gosið í Geldingadölum er merkilegur atburður. Hér er um að ræða fyrsta gosið á Reykjanesskaga í 800 ár, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Við vonum að það valdi ekki tjóni og það verði kannski til þess að við förum að fara betur yfir hluti hvað varðar Reykjanesskagann og hvað gæti gerst þar í þessum efnum. Jarðvísindamenn hafa sagt að þetta gæti verið upphafið að tímabili þar sem koma fleiri gos og það sé óvissa um hvenær næsta gos verði. Þeir hafa jafnvel sagt að eldsumbrot á Reykjanesi eigi eftir að aukast til muna og að runnið sé upp nýtt kvikuskeið á Reykjanesinu.

Þessir atburðir allir beina sjónum okkar að flutningskerfi raforku til Suðurnesja og öryggi í þeim efnum. Ekki er deilt um að það þarf að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja, en hins vegar hefur verið deilt um með hvaða hætti eigi að flytja orkuna, hvort leggja eigi nýja loftlínu eða jarðstreng. Þessar deilur hafa staðið um árabil, því miður, og verður að segjast eins og er, og ég hef áður sagt það í þessum ræðustól, að ríkisvaldið og Landsnet hafa staðið sig illa í því að halda á þessu máli. Stjórnvöld voru m.a. gerð afturreka með eignarnámsheimild, þannig að málið er enn í hnút. En þetta er mikið öryggisatriði fyrir Suðurnesin og við sáum það svo sannarlega núna í þeirri miklu jarðskjálftahrinu sem dundi yfir áður en gosið hófst að það vissi í raun og veru enginn hvað væri að gerast og hvar kæmi til goss ef sú yrði raunin, sem síðan varð. Þarna voru orkumannvirki í hættu. Við sáum birt hraunflæðiskort frá vísindamönnum Háskóla Íslands þar sem hraun flæddi yfir orkumannvirki og rafmagnslínur og hefði náttúrlega getað valdið miklu tjóni fyrir Suðurnesin.

Þá erum við komin að raforkuörygginu. Við undirbúning nýrra flutningsvirkja raforku er að mörgu að hyggja og þar vegur öryggisþátturinn mjög þungt, að sjálfsögðu. Þessi eldsumbrot vekja spurningar um hvort flutningskerfi til Suðurnesja geti verið í hættu, hvort núverandi línustæði sé yfir höfuð heppilegt með tilliti til jarðhræringa. Mér finnst eðlilegt, frú forseti, að minnast á þetta hér vegna þess að frumvarpið fjallar um raforkuöryggi. Þá vil ég koma að því að uppi hafa verið hugmyndir um að leggja sæstreng milli Straumsvíkur og Suðurnesja. Þær hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni og væri fróðlegt að fá að vita hvort ekki hafi verið skoðað nánar og í alvöru að þessi möguleiki gæti verið fýsilegur nú þegar við vitum ekki hvernig þessi mál þróast á Reykjanesi, og ekki síst í ljósi þess að vísindamenn telja að Reykjanesskaginn sé á leiðinni inn í nýtt tímabil jarðhræringa sem gæti staðið yfir um áratugaskeið.

Ég vil hvetja stjórnvöld og hæstv. ráðherra til að skoða alla möguleika í þessum efnum, útiloka engan möguleika þegar kemur að raforkuöryggi til Suðurnesja og útiloka ekki lagningu sæstrengs. Það er eflaust kostnaðarsamara og þarfnast eflaust meira viðhalds. En það er mikilvægt að menn skoði alla þessa hluti og í samstarfi við jarðvísindamenn vegna þess að við erum náttúrlega að upplifa hluti á Reykjanesskaga sem enginn átti von á að myndu gerast svona nálægt byggð og mikilvægum orkumannvirkjum, gosið í Geldingadölum. Um er að ræða svæði sem verið hefur nánast þögult í 800 ár og það veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. En þessir atburðir eru ákveðin vísbending um að þetta svæði sé allt að verða virkara þannig að ég tel eðlilegt að menn horfi til þess að finna öruggustu leiðina sem í boði er til að tryggja afhendingaröryggi raforku til Suðurnesja.