151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

almannavarnir.

622. mál
[13:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Hér er mál á ferðinni um almannavarnir, eins konar endurskoðun á ýmsu í lögunum. Þegar maður ræðir um almannavarnir er maður að ræða ákaflega margt. Við erum jafnvel að ræða um leit og björgun í vissum tilvikum. Við erum að ræða um þjóðaröryggi, náttúruvá og aðra vá sem kann að steðja að okkur og þeim hefur fjölgað ef eitthvað er. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að standa að framlagningu á málinu vegna þess að það er margt til bóta í þessu frumvarpi. Svo þarf að mínu mati að ganga lengra. Næstu skref gætu verið endurskoðun á lögum um almannavarnir og undirbúningur að heildarlögum sem eru kannski nokkurn veginn tæmandi og til lengri tíma.

Það hefur eitt og annað breyst undanfarin ár þegar kemur að almannavörnum, m.a. það sem við getum kallað viðföng almannavarna. Það er náttúrlega bara fjölgun atvika á ýmsa vegu. Þegar ég ræði um almannavarnir er ég um leið að ræða um leit og björgun á landsvísu vegna þess að þetta eru óaðskiljanlegir hlutir þó að daglegur rekstur Landsbjargar heyri ekki undir almannavarnir. Það sem hefur gerst einkanlega er annars vegar það að við höfum séð gríðarlega fjölgun ferðamanna og eigum eflaust eftir að sjá hana endurnýjast þegar veiran hefur lotið í lægra haldi fyrir okkur. Það tengist almannavörnum, það er óhjákvæmilegt. Loftslagsbreytingarnar kalla sífellt á fleiri verkefni og munu kalla á fleiri verkefni, hvort sem það er vegna skriðufalla eða hækkunar sjávarborðs eða einhvers annars. Svo koma inn í þetta óvæntir atburðir eins og við sjáum núna á Reykjanesskaganum, þ.e. eldgos, sem er á góðum stað og lítið en enginn veit í sjálfu sér hvernig þróast. Það veit heldur enginn hvernig atburðarásin þróast næstu ár og áratugi varðandi óróa, bæði jarðskjálfta og eldvirkni, á Reykjanesskaganum í heild sinni. Það er því fjölgun atvika, má segja.

Síðan hefur viðhorfið breyst til almannavarna. Þetta er orðið meira áberandi, við getum bara kallað þetta stofnun í samfélaginu. Tengingin við þjóðaröryggisráð og þjóðaröryggishagsmuni er alltaf að verða skýrari þannig að það er ákveðin breyting á viðhorfum.

Mér líst vel á þær breytingar sem hafa verið gerðar, eins og t.d. á almannavarnaráði og hvað varðar skýrari valdheimildir ríkislögreglustjóra. Það er jú dómsmálaráðherra sem er yfir almannavörnum. Þetta er allt saman þekkt og þarna hafa orðið ágætisbreytingar á.

En ég vil ganga skrefinu lengra og tengja almannavarnir fastar við þjóðaröryggisráðið og þjóðaröryggismálin yfir höfuð og tryggja samhæfingu betur, áætlanagerð og annað slíkt. Þá er ég ekki bara að tala um brottflutningsáætlun, ég er bara að tala um viðbragðsáætlanir yfir höfuð fyrir allt landið og landshluta gagnvart ólíkri vá. Allt þetta vil ég samhæfa og setja undir forsætisráðuneytið sem hefur þá samskipti við öll önnur ráðuneyti. Eftir sem áður er dómsmálaráðherra yfirmaður ríkislögreglustjóra, sem er aftur leiðandi þegar á bjátar. Ríkislögreglustjóri er þar hinn æðsti stjórnandi fyrir utan ráðherra og það breytist að mínu mati ekki. Að þessu kæmu auðvitað líka vísindaráð almannavarna, samhæfingarmiðstöðin, lögreglustjórarnir í sérhverju umdæmi og björgunarsveitirnar enn og aftur í ólíkum umdæmum. Í þeim eru eins og alþjóð veit, og við þekkjum og þökkum fyrir, yfir 4.000 manns í sjálfboðavinnu, meira eða minna, og þær eru auðvitað undirstaða almannavarna í landinu öðru fremur þegar til stykkisins kemur, eins og stundum er sagt. Við getum nefnt fleiri aðila. Við getum nefnt almenna löggæsluliða, við getum nefnt sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn, en svo finnst mér yfirleitt vanta á, þegar upptalningin er sett fram og það er Landhelgisgæslan. Mér finnst að leggja eigi áherslu á beina aðild hennar að almannavörnum og samráðinu sérstaklega þegar þessir vikulegu fundir eða á tveggja vikna fresti eru og aðilar almannavarna hittast. Þar á Landhelgisgæslan auðvitað að vera með.

Þetta eru atriði sem mig langar að leggja í púkkið þegar gengið verður að næstu ákvörðunum í þessum málum. Þar kemur inn í til íhugunar hvort ekki sé rétt að hluti af þessum stóra hópi sjálfboðaliðanna — sem er og verður alltaf hinn stóri framkvæmdahópur þegar þarf á aðstoð og öðru slíku að halda — kannski 5% eða eitthvað slíkt, verði eins konar kjarni björgunarsveita í landinu á launum. Það verði fastir starfsmenn sem létta álaginu á sjálfboðaliðunum án þess að þeirra hlutverk minnki eitthvað. Ég er að hugsa um hóp sem stundar reksturinn á batteríinu og jafnvel hluti getur farið í vissar tegundir aðgerða, svo sem skyndileitir og snjóflóðaleitir þar sem allt byggist á gríðarlegum hraða. Þetta er landshlutaskiptur kjarni. Hluti hans getur verið með hlutverk lögvarða þannig að þeir geti stundað löggæslustörf á hálendinu því að nú vitum við, hvort sem þessi hálendisþjóðgarður verður til nú eða síðar eða margir þjóðgarðar eða hvernig á endanum það skipulag verður, að það er auðvitað þörf á miklu meiri löggæslu en hin almenna lögregla hefur nokkurn tímann getað framfylgt þegar þetta verður komið í það horf sem við gætum hugsanlega séð. Þetta gildir líka hugsanlega um flugkost Landhelgisgæslunnar, hugsanlega minni björgunarþyrlu sem hefur verið rætt um sem gæti svo auðveldlega verið undir flugsviði Landhelgisgæslunnar. Ef við horfum á þetta í heild sinni þá er ég raunverulega að tala um að til verði faghópur sem léttir álaginu á sjálfboðaliðahópnum stóra sem eftir sem áður gegnir auðvitað lykilhlutverki í þessu öllu saman. Þetta eru hugmyndir sem ég vildi koma hér á flot.

Að lokum, frú forseti, vildi ég minna á rannsóknarnefnd almannavarna sem var til og hittist, að því ég best veit, bara einu sinni, var aldrei starfandi í raun og veru en átti að gera — hvað? Jú, hún átti ekki bara að vera einhvers konar eftirlitsaðili, hún átti líka að hafa frumkvæði að breytingum. Slíkur hópur sem heitir þess vegna rannsóknarnefnd almannavarna eða fagráð almannavarna, eða hvað við viljum kalla það, er þá hópur sérfræðinga í ólíkum málefnum sem hittast stöðugt, ekki eftir þörfum eða á neinn annan máta, og er hliðarhópur við almannavarnaráð, hliðarhópur við forsætisráðuneytið, ef þetta lítur út eins og ég vil helst sjá, þar sem vélað er um aðgerðir sem fara fram, hvernig skipulagið gengur upp hverju sinni og síðast en ekki síst kemur auga á það sem ber að gera í forvarnaskyni og ber að gera til að efla almannavarnir, svo ég fái að sletta, frú forseti, próaktíft, eins og menn segja stundum. Þá er horft fram í tímann og þá er búið að skipuleggja breytingar eða aðgerðir áður en til þeirra þarf að taka.

Ég vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari bæði mjúkum og hörðum höndum um þetta ágæta frumvarp og hef ég þá lokið máli mínu.