151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

markaðir fyrir fjármálagerninga.

624. mál
[14:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég held að það sé alveg ljóst að í svo viðamiklu frumvarpi, þar sem stutt er í að lögin taki gildi ef frumvarpið verður samþykkt, muni örugglega koma upp atriði sem þurfi að skoða. Ég tel að sjálfsögðu að það sé mikilvægt að þessi lög verði samþykkt, en ég hef smá áhyggjur af því og velti fyrir mér hvort ekki væri æskilegt að seinka gildistökunni til að gefa fjármálamarkaðnum tækifæri til þess að bregðast við. Þetta er afar stuttur tími að mínu mati sem þeim er gefinn þarna og mér heyrist að hæstv. ráðherra sé sammála því.

Ég vildi aðeins víkja að öðru. Á bls. 103 í frumvarpinu er rætt um samráð. Mér finnst dálítið athyglisvert þar sem getið er um umsögn Arion banka, að hún sé almenns eðlis, en í henni sé m.a. farið þess á leit að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt sé við innleiðingu MiFID2 í íslenskan rétt. Ég tek undir það en legg áherslu á að við samræmum þetta gagnvart Evrópusambandinu, að við séum ekki með neinar aðrar reglur hér en á markaðnum í Evrópu, sem er náttúrlega stór og mikill og við berum okkur gjarnan saman við hann þegar kemur að fjármálagerningum. Vitnað er í umsögn Arion banka og bent á að tímabært sé að endurskoða viðurlagakafla laga á fjármálamarkaði. Mér finnst það dálítið athyglisverð setning. Ef hæstv. ráðherra vildi koma með viðbrögð við þessu, hvort hann sé sammála því að það þurfi að endurskoða viðurlagakaflann á fjármálamarkaði.