151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

625. mál
[14:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get sagt varðandi tímarammann að ég hef mjög verið að reka á eftir þessu og við erum að gera úrslitatilraun til að ljúka þessari samningalotu. Ég vil þá bara fá það fram, ef samningar nást ekki á viðunandi forsendum. Ég vil bara fá það fram til að skoða valkostinn sem hér var nefndur. Varðandi hitt atriðið: Ef við setjum í lög kröfu um stafrænt aðgengi fyrir alla, hver á þá að halda á skilríkjunum? Ég skil vel hvað hv. þingmaður er að fara með hugmyndinni, að það verði að vera ríkið sem haldi á grunni skilríkjanna sjálfra. Við höfum hins vegar farið þá leið mjög víða í tæknilausnum okkar að við bjóðum út alls konar þjónustu við þessi kerfi okkar. En ég held að það sé heilmikið til í því hjá hv. þingmanni að það geti verið nauðsynlegt í þessu tiltekna máli að einfalda eignarhaldið og tryggja ríkinu fullt forræði yfir félaginu og þar með frelsi frá hagsmunum annarra hluthafa í félaginu sem geta haft aðrar væntingar um hlutverk félagsins en falla saman með því sem ríkið þarf að sjá gerast þarna. Að því leyti til getur það verið til mikillar einföldunar að ríkið leysi til sín alla eignarhlutina. Ég hafði hins vegar alveg getað séð fyrir mér að ríkið, ef við værum að byrja frá grunni, myndi bara gera áskilnað um að eignast allt sem unnið væri fyrir okkur og við gætum útvistað einhverjum hlutverkum í þessu. En við erum ekki stödd þar akkúrat núna.