151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

625. mál
[14:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Aftur ætla ég bara að fagna orðum hæstv. ráðherra. Mér heyrist að við séum nokkuð sammála um mikilvægið og ég fagna því að hæstv. ráðherra taki undir þau sjónarmið sem ég og fleiri í þingflokki okkar höfum rætt varðandi það að þetta tvennt haldist í hendur. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að einhvers konar samráðsvettvangur, ég man ekki nákvæmlega hvaða orðalag hæstv. ráðherra notaði hér áðan, þeirra aðila sem að þessu hafa komið geti alveg verið sniðugur. Á endanum viljum við öll að við höfum bara rafræn skilríki sem eru örugg í sífellt flóknari heimi þegar kemur að hinu rafræna, en um leið að eignarhaldið sé skýrt á hendi ríkisins. Við segjum við fólk: Þú mátt ekki keyra bíl nema þú hafir sérstakt ökuskírteini. Þú mátt ekki ferðast á milli landa nema hafa sérstakt vegabréf. Og mér finnst að við sem setjum slík skilyrði eigum að taka það að okkur að gefa þetta út. Ég vildi bara koma þessu á framfæri, forseti. Ég leysi hæstv. ráðherra undan þeirri kvöð að koma hér og svara andsvarinu, ef hann kýs svo. Það er engin spurning fólgin í þessu. Við höfum átt hér ágætissamtal. Ég bara fagna þessum orðum hæstv. ráðherra.