151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

viðbrögð við upplýsingaóreiðu.

222. mál
[14:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þó að ég ætli ekki að fara út í langar umræður um þetta mál á þessu stigi þá held ég að það sé engu að síður ástæða til þess að slá einn varnagla þegar hugmyndir af þessu tagi koma fram. Hér er verið að lýsa vandamáli sem er raunverulegt. Það er raunverulegt vandamál að mikið af falsfréttum er í umræðu og ýmsir aðilar, jafnvel erlend ríki, liggi undir grun um að reyna að hafa áhrif á opinbera umræðu og stjórnmálaástand í öðrum löndum með skipulögðum hætti, með því að dreifa röngum upplýsingum með skipulögðum hætti. Þannig að ég dreg ekki úr því að tillöguflytjendur eru á réttu róli varðandi það að hér er um að ræða vandamál sem er til staðar.

Ég verð hins vegar slá þann varnagla þegar hugmyndir af þessu tagi koma fram að ríkisrekin viðleitni til þess að tryggja að sjónarmið og upplýsingar sem fram koma á opinberum vettvangi séu réttar, er varasöm. Það er varasamt að ríkið setji sig í þau spor að það geti sorterað út hvað séu réttar upplýsingar og hvað rangar, og ef ekki er farið gætilega í sambandi við mál af þessu tagi geta menn farið að nálgast ritskoðun mjög hratt, það er hin hliðin á peningnum. Það er vandamál þarna en það verður að stíga mjög varlega til jarðar þannig að við förum ekki út í ritskoðun. Margt af því sem sagt er og haldið er fram í opinberri umræðu má deila um. Það má deila um hvað sé rétt í því og hvað rangt. Ég verð að játa að ég fæ alltaf kaldan hroll þegar ég heyri hugmyndir um að ríkisvaldið ætli að setja sig í dómarasæti gagnvart því hvaða upplýsingar og hvaða skoðanir mega koma fram, hvaða skoðanir og upplýsingar séu réttar og hverjar rangar. Án þess að ég vilji gera lítið úr viðleitni tillöguflytjenda til að takast á við vandamál sem er raunverulegt þá segi ég að þegar þingið fjallar um þetta þarf að horfa mjög vandlega á þetta út frá tjáningarfrelsis- og málfrelsisjónarmiðum. Ef velja á milli þess að láta málfrelsið og tjáningarfrelsið ráða og taka sénsinn á því að fram komi rangar upplýsingar og að verið sé að dreifa falsfréttum vil ég frekar taka sénsinn á því að falsfréttum sé dreift og að rangar upplýsingar komi fram en að fara í ritskoðunina.