151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

viðbrögð við upplýsingaóreiðu.

222. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er vandmeðfarið hversu langt ríkisvaldið eigi að ganga í að vega og meta upplýsingar. En við erum ekki bara með lýðræði undir. Ég veit að hv. þingmaður þekkir vel að við höfum mikið verið að tala um netöryggismál og fjölþátta ógnir og við vitum það að dreifing falskra frétta og upplýsingaóreiða er aðferð sem er notuð markvisst. Sum ríki, já ég get sagt það hér, eins og Rússland, eru þekkt fyrir að vera mjög þróuð á því sviði. Þetta er markvisst og útpælt og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir það sem við treystum á, þ.e. lýðræðisleg samfélög eru grundvölluð á ákveðnu trausti. Ef traustið fer er ég ansi hrædd um að lýðræðinu standi raunverulega ógn af því, ef við getum ekki treyst því að það sé satt og rétt sem okkur er sagt.

Eins og ég nefndi hér áðan hafa okkar helstu bandamenn og nágrannar verið að setja ákveðinn ramma utan um þessa hluti á ýmsum sviðum, lög og reglur. Er þingmaðurinn ekki samt sammála því, þó með þeim fyrirvörum sem hann hefur nú þegar nefnt, að við ættum að fara í þessa vinnu og skoða mjög vandlega, auðvitað með gagnrýnum hætti, hvað bandamenn okkar hafa verið að gera og hvort ekki sé ástæða til að feta alla vega að einhverju leyti í þeirra spor út frá þeim kringumstæðum sem við búum við hér á Íslandi?