151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[15:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið hér í dag um einkar óheppilega verkstýringu og sóun á starfskröftum þingmanna þegar ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki hugsað sér að styðja góð mál sem koma frá stjórnarandstöðuflokkunum en mæta svo korteri síðar með eigin mál sem eru algjörlega sambærileg. Sem dæmi vil ég taka mál sem er til 1. umr. hér í dag og varðar afglæpavæðingu neysluskammta. Þar fóru stjórnarliðar mikinn í umræðunni í fyrra þegar hv. velferðarnefnd var búin að vinna þetta mál algerlega til loka, búin að kalla inn alla gesti, vinna málið, búa til nefndarálit, en stjórnarliðar treystu sér ekki til að styðja málið af því að það vantaði einhverja eina skilgreiningu á einhverju magni. Svo kemur nýtt frumvarp og þá reynist umrædd skilgreining ekki heldur vera til staðar. Maður veltir fyrir sér: Af hverju koma þeir ekki (Forseti hringir.) bara með breytingartillögu við þau þingmál sem búið er að eyða öllum þessum tíma í að vinna í? Hv. velferðarnefnd er með alveg nóg á sinni könnu þó að hún sé ekki að margendurvinna sömu málin.