151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að mæla fyrir þessu máli og leggja það fram. Ég styð það náttúrlega heils hugar. En mig langar til að spyrja út í þetta af því við Píratar lögðum fram svipað mál á þessu þingi. Þar kom fram að við myndum setja saman starfshóp til að skoða og fylgjast með árangri þessarar stefnubreytingar, þ.e. hvaða árangur afglæpavæðing hefði og horfa líka til þess að ef sparnaður yrði í refsivörslukerfinu, hvort það yrði ekki tryggt að þeim peningum yrði varið í forvarnir. Að það komi fram hversu mikilvægt það er að við séum að efla forvarnastarf á sama tíma og við erum að afglæpavæða.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvers vegna það kemur ekki fram í þessu frumvarpi og hvort hún sé á tánum gagnvart þessu. Verður tryggt að vel verði fylgst með þessu? Ég hef áhyggjur af því að ef við gerum það ekki, að það verði enginn auðsjáanlegur árangur sem við mælum og fylgjumst með, gæti þetta svo auðveldlega farið aftur í fyrra horf.