151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og raunar samstarfið í þessum málaflokki, sem hefur verið mjög dýrmætt. Það er langtímamál að meta áhrifin af breytingum af þessu tagi. Enn er deilt um áhrifin í Portúgal þrátt fyrir 20 ára reynslu frá gildistöku laganna. Ég tek undir grundvallarhugsunina í því að fylgjast mjög vel með því sem gerist við breytingar af þessu tagi. Við erum að gera landskannanir í grunn- og framhaldsskólum almennt í samfélaginu sem lagðar eru fyrir krakka í 10. bekk alls staðar á landinu. Rannsóknir og greining eru að gera rannsóknir og lýðheilsuvísa embættis landlæknis má nota til þess að mæla óbein áhrif á margan hátt.

Ég hef hins vegar lagt áherslu á að lýðheilsustefna sem er til meðferðar í hv. velferðarnefnd sé partur af því að kanna og fylgjast með þeim áhrifum sem þarna verða, en ekki síður að bæta forvarnir og styrkja þær, vegna þess að þetta verður alltaf að hanga saman. Það er samt sem áður algjörlega mín sannfæring, af því að hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort ég sé nægilega á tánum í þessum efnum, að við erum aldrei nægilega vel á tánum í þessum efnum svo lengi sem við höfum tileinkað okkur hugmyndafræði skaðaminnkunar og látum okkur ekki óra fyrir því að við getum búið til einhverja löggjöf sem eyðir fíkniefnum í samfélaginu.