151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn vil ég setja spurningarmerki við alhæfingar af þessu tagi, að aðstandendur vilji eitthvað tiltekið. Ég held að það sé bara mjög mismunandi. Sú reynsla og þekking sem við byggjum á hér er ekki bara reynsla og þekking þeirra sem vinna með þessum jaðarsetta hópi, sem er fyrst og fremst Rauði krossinn og svo heilbrigðiskerfið að sumu leyti, og aðstandendur eru auðvitað ekki einsleitur hópur. Við byggjum hér fyrst og fremst á hugmyndafræði skaðaminnkunar sem snýst um mannúð og virðingu fyrir fólki sem er í vanda, þ.e. að koma í veg fyrir að fólk neyðist til að fara algerlega út á jaðarinn vegna neyslu sinnar og geti haldið sig inni í ljósinu, eigi rétt á heilbrigðisþjónustu og eigi rétt á því að vera þátttakendur í samfélaginu. Það er í raun og veru sú hugmyndafræði sem Norðmenn hafa kallað Frá refsingu til mannúðar, sem ég held að við gætum vel flaggað og verið stolt af að ganga undir. Aðstandendur eru auðvitað eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Sumir eru fylgjandi mannúðlegri nálgun fyrir sinn ástvin. Flestir vilja að viðkomandi fái þá hjálp sem hægt er, eins mikla hjálp og hægt er. Að sjálfsögðu þurfum við að tryggja að til séu meðferðarúrræði fyrir þau sem vilja hætta og geta hætt, en um leið megum við ekki loka dyrum okkar gagnvart þeim sem þurfa að fá viðunandi þjónustu.