151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Við erum nú reiðubúin til að ganga gegn því sem teljast almenn mannréttindi vegna þess að það er talið nauðsynlegt í baráttu við faraldur. En á sama tíma leggur ríkisstjórnin nú til að annar faraldur og ekki síður hættulegur verði sérstaklega lögleiddur, leggur til lögleiðingu fíkniefna. Eins og í svo mörgum tilvikum í þessum nýaldarstjórnmálum sem ríkisstjórnin stundar af síauknu kappi er farið að dæmi Orwells og leitast við að búa til ný orð yfir hlutina og fundið upp orðskrípið afglæpavæðing fyrir lögleiðingu fíkniefna. Það gengur út á að menn geti neytt fíkniefna með leyfi frá stjórnvöldum.

Oft á tíðum er það að eitthvað sé ólöglegt ástæðan fyrir því að fólk gerir það ekki, er stærsta hindrunin. Skilaboðin sem stjórnvöld senda um hvað sé leyfilegt í samfélaginu og hvað ekki hafa í gegnum tíðina haft töluvert mikið að segja og ekki síst í tilviki fíkniefnaneyslu þar sem útskýrt er fyrir börnum og auðvitað fullorðnum líka að það sé ólöglegt að neyta fíkniefna. Ég hef aldrei séð eiturlyf, herra forseti, eða þeirra neytt vegna þess að þau hafa verið ólögleg og menn hafa ekki verið að flíka þeim. En með þeirri breytingu sem hér er lögð til má væntanlega búast við því að menn verði óhræddir við að mæta með sína neysluskammta í bekkjarpartíin og önnur samkvæmi þar sem freistingin verður væntanlega mikil fyrir aðra að prófa, fólk sem ella hefði ekki komist í kynni við þessi eiturlyf. Með öðrum orðum, þetta eykur augljóslega til mikilla muna aðgengi að eiturlyfjum og mun fyrir vikið gera miklu fleiri líklega til að prófa þessi efni. Með öðrum orðum, það verður hætta á smiti í hverju bekkjarpartí.

Neysla eiturlyfja byrjar alltaf á neysluskammti en neysluskammtur eins getur verið banabiti annars. Það er mjög ólíkt hvað fólk þolir af fíkniefnum. En svo reyndar upplýsir hæstv. ráðherra um það hér að jafnvel verði horft til Noregs hvað neysluskammt varðar þannig að átt sé við tíu daga neysluskammt af fíkniefnum sem menn geti haft á sér og þá á mun auðveldari hátt en áður gefið með sér eða selt. Það er með stökustu ólíkindum, herra forseti, að málið skuli koma fram með þessum hætti og ekki einu sinni reynt að draga dul á það af hvaða rótum það er runnið. Skilaboðin eru, eins og hæstv. ráðherra hefur flutt hér, að þetta séu ekki eiturlyf, þetta séu ekki fíkniefni. Við ætlum að fara að kalla þetta vímuefni og þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta eru skilaboðin til krakkanna um eiturlyf frá ríkisstjórninni á árinu 2021. Ráðherrann ætlar með reglugerð að útlista þetta nánar, veit reyndar ekki alveg hvað neysluskammtur er, er ekki búinn að komast að því en ætlar að leita ráða m.a. hjá fíkniefnaneytendum sem eflaust hafa hver sína skoðun á því hvað er eðlilegur neysluskammtur. Engu að síður vill ráðherrann að þingið lögleiði neysluskammta sem ráðherrann veit sjálfur ekki hvað er. Þetta mál er allt með stökustu ólíkindum, herra forseti.

Og hvað gerist svo þegar einhver deyr af völdum eins ráðlagðs neysluskammts samkvæmt reglugerð? Hver er ábyrgð stjórnvalda þar? Verður farið fram á gæðaeftirlit með þessum neysluskömmtum, því hversu sterkir þeir eru til að mynda? Fíkniefni eru oft á tíðum blönduð með öðrum efnum. Verður metið í hverju tilviki hvort til að mynda kókaín sem gert er upptækt — eða ekki gert upptækt ef þessi lög öðlast gildi — sé 10% hreint eða 100%? Menn geta væntanlega ekki lagt mat á það því að þeir sem verða með efnin geta einfaldlega sagt lögreglunni að hypja sig. Það má ekki, og er sérstaklega áréttað í frumvarpinu, gera efni upptækt sem talist getur til neysluskammta eða neyslu tíu daga eða hver sem verður niðurstaðan. Með öðrum orðum, lögregla getur tekið áfengi af 18 ára krakka, 18 ára ungmenni, en má ekki taka kókaín af sama ungmenni öðlist þetta frumvarp gildi sem lög.

Ég hef heyrt margar sögur fólks sem hefur ýmist sjálft átt í baráttu við fíkniefni eða það sem oftar er, verið að aðstoða ættingja, börn oft á tíðum. Eftir að þetta mál kom fram heyrði ég sögu af því hvernig foreldrar hefðu, að eigin mati og þau færðu rök fyrir því, bjargað lífi barns síns vegna þess að það var tekið með neysluskammt og það gaf tækifæri til að grípa inn í. Á þetta hefur lögreglan, bæði hér á Íslandi og víðar, bent, á mikilvægi þess að hafa þennan möguleika á að grípa inn í einmitt til að aðstoða fólk og sýna mannúð, sem er eitt af þeim orðum sem eru notuð hér á orwellskan hátt til að rökstyðja þetta frumvarp. En með þessum lögum, öðlist þau gildi, má ekki grípa inn í. Það má ekki einu sinni hafa slæm orð um það sem hæstv. ráðherra segir að við eigum að fara að kalla vímuefni en ekki eiturlyf og ekki halda því fram að það sé neitt óeðlilegt við það að ánetjast eiturlyfjum. Fólk sem lendir í fíkn vill, ímynda ég mér, í langflestum tilvikum fá aðstoð. Skilaboðin frá stjórnvöldum eiga ekki að vera þau að við ætlum ekkert að grípa inn í. Oft á tíðum þarf fólk einfaldlega á því að halda og er þakklátt eftir á þegar gripið hefur verið inn í með þeim úrræðum sem eru til staðar.

Svo er því fleygt hér í tengslum við þessa umræðu, hæstv. ráðherra má reyndar eiga það að hún gerði ekki mikið af því hér í ræðu sinni, að það sé verið að fangelsa fólk fyrir að vera fíkniefnasjúklingar. Það kemur reyndar fram í frumvarpinu að það heyrir til algjörra undantekninga, það er ekki stundað á Íslandi að fangelsa fólk fyrir að vera með neysluskammt vímuefna en það gefur tækifæri til að grípa inn í og aðstoða viðkomandi. Hins vegar má gjarnan velta því fyrir sér, og ég hefði frekar viljað sjá frumvarp á þeim nótum, hvort ekki sé ástæða til þess að hreinsa sakaskrá fólks af minni háttar fíkniefnabrotum áður en langt um líður til að gefa fólki tækifæri til að byggja upp eigið líf án þess að sitja uppi með þann bagga að slíkt sé skráð til langframa í sakaskrá. Ég myndi styðja slíkar umleitanir.

Nú höfum við fyrir framan okkur þessa miklu furðu sem þetta frumvarp er. Það er reyndar Píratamál eins og meira að segja hæstv. ráðherra áréttar og hv. þingmenn Pírata hafa lagt áherslu á hér áður en þessi umræða hófst. En nú er það flutt eins og svo mörg önnur nýaldarstefnumál sem þessi ríkisstjórn hefur tekið upp á sína arma, þetta er ríkisstjórnarmál, af ráðherra og þingmönnum Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Sjálfstæðisflokksins sem skilgreindi sig í eina tíð sem flokk laga og reglu og Framsóknarflokksins sem boðaði fíkniefnalaust Ísland árið 2000. Munu þessir flokkar fallast á þetta furðuverk sem hér birtist okkur?

Svo eru tínd til erlend dæmi, Portúgal mikið nefnt í þessu samhengi. En reynslan frá Portúgal, sú aðferð sem er beitt þar er gjörólík því sem hér er lagt upp með. Þar er einmitt til staðar möguleikinn á að grípa inn í og þar er líka til staðar leið til að taka á móti fíkniefnaneytendum þegar gripið er inn hjá þeim í ríkara mæli en hér. En hér mega ekki einu sinni frjáls félagasamtök gegna sínu hlutverki í heilbrigðismálum án þess að að þeim sé sneitt frá heilbrigðisyfirvöldum. Það er kannski helst að þetta eigi eitthvað sameiginlegt með Oregonfylki í Bandaríkjunum, eins og nefnt var, en það fylki er reyndar frægt fyrir mikil undur og furður og tilraunastarfsemi í lagasetningu og ég efast um að það muni reynast vel að fylgja þeim hvað varðar margar breytingar sem þar hafa verið gerðar þótt ég hafi ekki tíma til að rekja það hér. En það kæmi mér örlítið á óvart ef þeir flokkar sem standa að þessari ríkisstjórn ætluðu að fara að fylgja þeirri stefnu sem hefur verið ráðandi í Oregonfylki.

Það er alltaf slæmt þegar löggjafinn gerir mistök en það er afleitt ef hann gerir þau með opin augun, þegar mistökin eru fyrirsjáanleg, eins og á sannarlega við í þessu tilviki. Þetta eru lög sem leiða óhjákvæmilega til aukinnar útbreiðslu fíkniefna því að menn geta mætt með fíkniefni hvar sem er, hvenær sem er og lögregla eða aðrir geta ekkert sagt því að skilaboðin frá ríkinu eru: Þetta er leyfilegt. Þetta er ekki eiturlyf, þetta er ekki fíkniefni, þetta er leyfilegt vímuefni og ekkert til að skammast sín fyrir, eins og hæstv. ráðherra orðaði það hér áðan.

Það var reyndar of margt sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra til þess að ég geti farið yfir það í stuttu máli, ég geri það kannski í seinni ræðu. En með þessu frumvarpi til laga er verið að hindra möguleika lögreglu á að grípa inn í. Það er verið að hindra möguleika þeirra sem aðstoða fíkniefnaneytendur við að fá hjálp, sem menn gera sér stundum ekki grein fyrir sjálfir að þeir þurfi en eru svo þakklátir eftir á fyrir að hafa fengið. Það er verið að hamla möguleikum aðstandenda til að grípa inn í og hjálpa.

Það er áhugavert að bera þetta saman við áherslur og umfjöllun um önnur mál, t.d. var umfjöllun um sykur og svo ekki sé minnst á reykingar. Þar mætir ekki ríkisstjórnin með þau skilaboð að sykurát sé nú ekkert til að hafa áhyggjur af. Er að vísu ekki búin að banna sykur þó menn hafi sumir hverjir kannski í þessu stjórnarsamstarfi haft einhverjar hugmyndir í þá veru. Það sama á við um ýmislegt annað þar sem þessi ríkisstjórn sýnir stöðugt meiri tilraunir til að stýra lífi fólks og banna ákveðna hluti en ætlar um leið að heimila það sem er kannski hættulegast af öllu, eiturlyf. Svoleiðis að nú kemur upp sú fáránlega staða, nái þetta fram að ganga, að menn geta verið með neysluskammt eða tíu daga skammt af eiturlyfjum á sér en þeir mega líklega ekki vera með það í plastpoka því að þeir eru bannaðir. En eiturlyfin í plastpokanum — jú, það er allt í lagi að mati þessarar ríkisstjórnar.

Eins og hæstv. forseti heyrir þá er margt sem ég á eftir að nefna í þessu máli. Ég fæ kannski tækifæri til þess síðar í umræðunni. En það vekur fyrst og fremst furðu mína að þetta mál skuli vera hér fram komið með þeim rökstuðningi sem ráðherrann hefur fram að færa fyrir því.